138. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2009.

kosningar til Alþingis.

102. mál
[21:12]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Ég vil með öðrum hv. þingmönnum taka undir þakkir fyrir þá ágætu umræðu sem hér hefur verið í kvöld um þetta annars um margt mikilvæga mál. Fá mál eru jafnmikilvæg og þau sem snúa að því hvernig við veljum fulltrúa á löggjafarsamkunduna og má einna helst jafna til umræðu um stjórnarskrá. Ég er þeirrar skoðunar að menn eigi að flýta sér hægt við að breyta lögum um kosningar til Alþingis sérstaklega en jafnframt til sveitarstjórna. Menn eiga að gera slíkt að yfirveguðu ráði, gera það þannig og vinna það þannig að um það sé góð og víðtæk sátt þannig að þegar að því kemur að framkvæma kosningar eftir nýjum lögum hafi menn reynt að búa svo um alla hnúta að vel fari strax frá fyrstu kosningu. Það er mjög alvarlegt mál að gera tilraunir með kosningar og ég verð að játa að ég er ekkert sérstaklega hrifinn af hugmyndum, hvorki um tilraunasveitarfélög, þaðan af síður um tilraunadýr, í þessum málum og tilraunakosningar tel ég vera eitthvað sem menn verða að gæta sín á.

Ég er ekkert áfram um að við séum að reyna að klára þetta mál þannig að hægt sé að kjósa eftir því til sveitarstjórna í næstu sveitarstjórnarkosningum. Ég tek undir það með hv. þm. Birgi Ármannssyni að umsögn stjórnar Vinstri grænna vekur athygli og um leið áhyggjur. Þetta er ekki sagt til að koma málinu í flokkspólitískan farveg heldur hitt að það er mikilvægt að þannig sé tekið á hlutunum að góð sátt sé um það.

Við höfum orðið vitni að því áður í umræðum í Alþingi að komið hafa inn mál frá meiri hlutanum sem síðan hafa ekki haft þingmeirihluta að baki sér og hafa valdið því að þingstörf hafa verið í töluverðu uppnámi. Má þar t.d. benda á nærtækasta dæmið, Icesave-málið, að hluta til líka Evrópumálin. Þetta er stórt mál og það er augljóst að stjórnarflokkarnir eru langt í frá sammála um það.

Í þessari umræðu hef ég hoggið nokkuð eftir orðum sem fallið hafa um stöðu stjórnmálaflokkanna og vissulega sýnist sitt hverjum um þá. Ég verð þó að segja að mér hefur fundist koma fram nokkuð góður skilningur á mikilvægi stjórnmálaflokkanna. Ég er nefnilega ekki sammála þeirri skoðun að stjórnmálaflokkarnir og tök þeirra séu merki um löngu liðna tíð. Fyrir margt löngu var það þannig hér að stjórnmálaflokkarnir voru veikir eða jafnvel ekki til staðar og að meira eða minna leyti var kosið með persónukosningu til Alþingis. Það er ekki fyrr en á 20. öldinni á Íslandi að staða stjórnmálaflokkanna fer að styrkjast þannig að úr þeim verða þeir stjórnmálaflokkar sem við þekkjum í dag. Fyrr á tímum var þetta einmitt miklu meira bundið persónum en menn komu sér síðan saman um samstarf á þinginu eftir að hafa verið kosnir. Það leiðir hugann að því þegar kemur að persónukosningum — og nú vil ég taka fram að ég er ekki að mæla gegn slíku — ég vil að menn hafi það hugfast að sú nálgun kann að leiða til þess að pólitíkin breytist meira í persónupólitík og ég er ekki viss um að það sé endilega það sem við viljum að gerist. Það skiptir máli, þegar við hugsum um það kerfi sem hér er sett upp, að við gætum okkar á því að það þróist ekki á þann veg.

Menn segja: Við viljum draga úr valdi stjórnarflokkanna. Gott og vel en þá aukum við oft og tíðum um leið vald einstakra stjórnmálamanna. Ég er þeirrar skoðunar að það sé mikil bjartsýni að ætla að ekki verði at á milli stjórnmálamanna innan sama stjórnmálaflokks um það hverjir fá mesta athygli í fjölmiðlum þegar líður að kosningum. Það segir sig eiginlega sjálft þegar maður, hvað skal segja, metur hlutina út frá eigin reynslu og annarra af þessu stjórnmálaþrasi öllu saman. Það er enginn annars bróðir í þeim leik. Þrátt fyrir að fólk geti haft góðan og mikinn félagsþroska þá er fjöldi sæta á Alþingi takmarkaður og gjarnan vilja fleiri komast til starfa í þessum sal en möguleg sæti eru fyrir.

Í þessari umræðu hefur verið sagt að rök fyrir þessari nálgun séu m.a. þau sem koma fram í frumvarpinu. Ég ætla, með leyfi forseta, að lesa upp úr greinargerð með frumvarpinu:

„Kannanir benda til að ýmsar af meginstofnunum íslenska fulltrúalýðræðisins, þar á meðal Alþingi, njóti nú minna trausts en nokkru sinni fyrr meðal almennings. Hugmyndin um að auka persónukjör tengist almennum sjónarmiðum um aðhald kjósenda með stjórnmálaflokkunum en um leið að auka traust á fulltrúasamkundunum.“

Gott og vel. Það kann að vera að þetta sé leið til þess. En á næstu síðu í greinargerðinni eru talin upp lönd þar sem menn beita mismunandi aðferðum við þetta, þar sem t.d. er val þvert á lista — menn telja að lengst sé gengið með því í persónukjöri. Þar eru talin upp lönd: Írland, Japan fram til 1995, Malta, Máritíus og Vanúatú — ég verð að játa, frú forseti, að ég þekki ekki mikið til þess lands þannig að ég ætla svo sem ekki að ræða mikið um stjórnmálaástandið þar. En ég velti því fyrir mér — og eins líka þegar talin eru upp lönd þar sem er um að ræða sterka útgáfu af persónukjöri; það er t.d. Ítalía fram til ársins 1993. Hafa menn t.d. í höndunum einhvers konar mælingar eða sjónarmið um það hvort traust almennings á stjórnmálamönnum á Ítalíu fram til ársins 1993 hafi verið meira eða minna eftir því hvaða kerfi var þar í gangi? Hafa menn séð það? Sama á við um Japan fyrir og eftir árið 1995. Ég vil með öðrum orðum vara við því að menn dragi of víðtækar ályktanir um að hægt sé að skapa traust með kerfisbreytingunum einum saman. Ég held að málið sé bæði víðtækara og dýpra. Samfélagsgerðin sjálf skiptir miklu máli, virðing fyrir hefðum og gildum og allir þeir þættir sem við höfum gjarnan rætt á þessu ári í kjölfar hrunsins sem varð hér síðasta haust.

Síðan er það þannig, svo að ég snúi mér aftur að spurningunni með stjórnmálaflokkana, að menn hafa áhyggjur af of miklu valdi þeirra. Ég sé að það muni þá gerast upp úr þessu — ef þetta verður niðurstaðan, og eins og kom fram hjá hv. þm. Róberti Marshall, ef ég man rétt — að það verði flokkarnir sjálfir sem ákveði talsmenn sína í kosningabaráttunni og um leið eru það þá þeir stjórnmálamenn sem líklegastir eru til að fá flest atkvæði í slíku persónukjöri. Ef það eru mest áberandi stjórnmálamennirnir þá segir það sig sjálft að það verður niðurstaðan. Það þýðir auðvitað að á annan bóginn telja menn sig hafa brotið töluvert upp vald stjórnmálaflokkanna en síðan verður það sennilega öðruvísi af því að það verða stjórnmálaflokkarnir sem taka ákvarðanirnar. Það verða þeir sem ákveða hverjir verða valdir í sjónvarpskappræðu o.s.frv., ekki einstakir frambjóðendur. Ef sú yrði niðurstaðan gæti maður ímyndað sér hvernig örtröðin yrði við dyr sjónvarpshússins fyrir hverjar einustu kappræður. Auðvitað verða það stjórnmálaflokkarnir sem taka þá ákvörðun og það verður lykilákvörðun um það hvaða stjórnmálamenn — (Gripið fram í: Kasta upp á það.) ég er ekki viss um að stjórnmálaflokkarnir væru tilbúnir að kasta upp á það, frú forseti, eins og hér var velt upp. Sennilega þætti mönnum sú áhætta of mikil rétt fyrir kosningar.

Hættan er sú að við búum til kerfi og segjum: Þetta á að skapa meira traust í samfélaginu. En síðan byrja menn að vinna eftir kerfinu og þá kemur raunveruleikinn í ljós eins og ég var að lýsa — hverjir ákveða hverjir taka þátt í kappræðum, hverjir taka þátt í stórum fundum o.s.frv. Ég spyr því: Hafa menn eitthvert mat frá þeim ríkjum sem hafa búið við þessi kerfi, hvort náðst hafi fram meira traust til stjórnmálamanna, hvort það hafi minnkað eftir að menn breyttu um aðferðir við að kjósa til þingsins o.s.frv.?

Að lokum vil ég segja þetta, frú forseti: Ég held að góður samhljómur sé um það á Alþingi að við viljum gjarnan sjá málum þannig háttað að möguleikar kjósenda til að hafa áhrif á það hverjir sitja á þingi eigi að vera sem mestir. Það er augljóst í mínum huga og það væri undarlegt ef hér inni væri einhver þingmaður sem hefði aðra skoðun. Þess vegna skiptir máli að menn geri ekki öðrum upp skoðanir um slíkt, að menn séu að reyna að draga úr þeim möguleikum þó að margir hv. þingmenn vilji fara gætilega, vilji huga vel að þessum málum, binda þannig um alla hnúta að þegar kemur að því að breytingar verða séu þær skynsamlegar, nái tilgangi sínum og gangi upp, eins og við höfum mörg hver líka verið að segja um breytingar á stjórnarskránni. Þannig á að halda á málum þar að menn fari með gát og umgangist stjórnarskrána af virðingu og menn eiga að gera það sama, frú forseti, með alla þá löggjöf sem snýr að því hvernig kosið er til Alþingis og sveitarstjórna.