138. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2009.

kosningar til Alþingis.

102. mál
[21:27]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mig langar að ítreka það sem ég sagði áðan að persónukjör með þeim hætti sem stefnt er að með frumvarpinu þýðir aukið val til handa kjósendum og aukið vald til handa kjósendum. Það er gott og það er hið besta mál. Þeir sem fyrir eru með völdin bregðast að sjálfsögðu við því hver með sínu móti og menn eru hræddir við breytingar. Það er einfaldlega mannlegt eðli. Sú megináhersla sem þarf að vera í þessu máli er að hér er um aukið lýðræði að ræða og menn eiga ekki að vera hræddir við aukið lýðræði. Það er gott mál og þó það kalli á breytta hugsun og breyttar aðferðir við kosningar og við prófkjör, eða hvaða aðferð sem menn nota til að raða inn á lista, þá er verið að færa valdið til fólksins í landinu til að það hafi meiri áhrif. Menn geta talað sig út og suður um það hvort það sé heppilegt núna eða eftir eitt ár eða hvort það hefði verið heppilegra í hittiðfyrra eða hvort átta mánuðir séu nægur tími eða átta ár séu nægur tími. Að mörgu leyti er verið að tala um keisarans skegg og ekki verið að ræða meginatriði málsins sem eru þau að hér er um að ræða aukið val kjósenda, aukið vald kjósenda og aukið lýðræði og það er gott.