138. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2009.

störf án staðsetningar.

34. mál
[14:16]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Frú forseti. Ég átti nú satt best að segja von á þessu svari frá hæstv. forsætisráðherra, þ.e. efnislega, að Samfylkingin hefur í raun og veru ekki fylgt eftir helsta kosningamáli sínu árin 2007 og 2009 þegar hún lofaði 1.200 störfum án staðsetningar. Hæstv. ráðherrum sem sitja hér á bekkjunum til upprifjunar sögðu þingmenn og frambjóðendur Samfylkingarinnar að þetta snerist um jöfn tækifæri fólks til að sækja um störf hjá hinu opinbera. Jöfn tækifæri, hæstv. utanríkisráðherra, þ.e. að einstaklingur norður í landi gæti sótt um starf án staðsetningar. Og hver er svo staðreynd málsins? Samfylkingin er búin að fara undangengnar tvennar kosningar hringinn í kringum landið, hefur lofað 1.200 störfum sem yrðu auglýst án staðsetningar. Hver er svo raunveruleikinn þegar hæstv. forsætisráðherra, formaður Samfylkingarinnar, kemur hér upp og svarar fyrir það hvað ráðuneyti hennar hafa gert á síðustu 10 mánuðum? Ekki neitt. Þetta er til skammar. Samfylkingin hefur svikið fjöldann allan af fólki vítt og breitt um landið. Og skyldi það verða svo fyrir næstu kosningar að Samfylkingin muni halda áfram að beita sér fyrir störfum án staðsetningar?

Ég tek undir með þeim þingmönnum sem hafa sagt að þegar við, þingmenn landsbyggðarinnar, höfum komið hér upp og reynt að standa vörð um þá starfsemi sem er þegar á landsbyggðinni horfum við upp á að mikilvægum störfum er þar fækkað. Og þegar þetta loforð er svo rifjað upp hér og það kemur í ljós að ekkert hefur verið gert spyr maður sig: Hvernig ætli því fólki á landsbyggðinni sem kaus Samfylkinguna árin 2007 og 2009 líði núna? Ég hugsa að því líði þannig að það hafi verið svikið, ósköp einfaldlega. (Forseti hringir.)