138. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2009.

skipun nefndar um fyrirkomulag varðandi leigu á vatns- og jarðhitaréttindum í eigu ríkisins.

96. mál
[14:23]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn. Hv. þingmaður spyr hvað líði skipun nefndar sem fjalla átti um fyrirkomulag varðandi leigu á vatns- og jarðhitaréttindum í eigu ríkisins og vísar til ákvæðis til bráðabirgða III í lögum nr. 58/2008. Því er til að svara að samkvæmt III. bráðabirgðaákvæði í lögum þessum um breytingu á nokkrum lögum á auðlinda- og orkusviði átti þáverandi forsætisráðherra að skipa nefnd til að fjalla um fyrirkomulag varðandi leigu á vatns- og jarðhitaréttindum í eigu ríkisins. Nefndin skyldi í störfum sínum fjalla um leigugjald, leigutíma, endurnýjun leigusamnings og önnur atriði er lúta að réttindum og skyldum aðila. Þá skyldi nefndin meta hvaða aðgerða væri þörf til að tryggja í senn sjálfbæra og hagkvæma nýtingu auðlindanna. Í störfum sínum átti nefndin m.a. að hafa til hliðsjónar reynslu annarra þjóða og huga að því með hvaða hætti yrði valið á milli þeirra sem áhuga hefðu á að nýta auðlindirnar.

Í nefndina voru þann 7. janúar 2009 skipuð Karl Axelsson hæstaréttarlögmaður, formaður, Elísabet Sigurðardóttir, lögfræðingur í forsætisráðuneytinu, Friðrik Már Baldursson, prófessor við Háskólann í Reykjavík, Þórunn Pálsdóttir, byggingaverkfræðingur og MBA, Hafsteinn S. Hafsteinsson lögfræðingur, samkvæmt tilnefningu fjármálaráðherra, Lúðvík Bergvinsson, fyrrverandi alþingismaður, samkvæmt tilnefningu iðnaðarráðherra, og Guðlaug Jónsdóttir lögfræðingur, samkvæmt tilnefningu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Nefndin átti að skila tillögum sínum fyrir 1. júní 2009 eins og fram kom í máli fyrirspyrjanda, en það hefur því miður dregist þar sem skipan nefndarinnar dróst umtalsvert á sínum tíma. Upphaflega var ráðgert að nefndin yrði sett á laggirnar þegar við gildistöku laganna í maí 2008, en það dróst hins vegar eins og ég segi að skipa nefndina af ástæðu sem mér er ekki kunnugt um og því var ekki lokið fyrr en í janúar 2009.

Það hefur verið sameiginlegur skilningur að nefndin þyrfti þó allt að einu að fá það ár til verkefnisins sem upphaflega var ráðgert og við það er miðað. Nefndin fundaði í fyrsta sinn í janúar á þessu ári og hefur síðan haldið 14 formlega fundi. Þess vegna kemur mér á óvart sem fram kom í máli fyrirspyrjanda, að hvorki hefði nefndin verið skipuð né nokkrir fundir haldnir.

Nefndin hefur staðið í viðamikilli gagnaöflun og fengið fjölda gesta á fundi sína. Fyrst og fremst er um að ræða sérfræðinga og fulltrúa hagsmunasamtaka. Grunndrög að lokaskipun nefndarinnar liggja fyrir, en áformað er að nefndin ljúki störfum og skili niðurstöðum sínum nú um áramót. Ég mun ganga mjög ákveðið eftir því að þau tímamörk standist og það er mikilvægt að réttarstaða á þessu sviði, þ.e. að því er varðar réttinn til að hagnýta auðlindir okkar, sé skýr. Á það ekki síst við um vatns- og jarðhitaréttindi sem verða æ dýrmætari og eftirsóknarverðari og við verðum að standa vörð um þessar auðlindir okkar og tryggja að nýting þeirra sé byggð á fullu jafnræði og sé á hverjum tíma gagnsæ. Vissulega ber okkur að nýta auðlindir okkar með skynsamlegum og sjálfbærum hætti, en úthlutun þessara gæða má þó ekki byggjast á skammtímasjónarmiðum.

Ég legg afar ríka áherslu á að við yfirstandandi endurskoðun og útfærslu, þegar niðurstöður nefndarinnar liggja fyrir, verði tryggt að ekki sé unnt að afhenda nýtingarréttinn til einhverra vildarvina eða aðila sem eru tengdir einstökum stjórnmálaflokkum eða sterkum hagsmunaaðilum. Hér erum við í raun að tala um eign þjóðarinnar og eigum að hafa það í huga þegar við mótum þann ramma sem nú er unnið að.