138. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2009.

skipun nefndar um fyrirkomulag varðandi leigu á vatns- og jarðhitaréttindum í eigu ríkisins.

96. mál
[14:29]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég ítreka að ég tel það ákvæði sem hér er spurt um til bráðabirgða — skipun þessarar nefndar og það að fá niðurstöðuna í þetta verkefni er afar mikilvægt. Ég taldi það svo mikilvægt að fyrr á þessu ári lét ég hafa samband við formann nefndarinnar og spyrja hvort ekki væri hægt að flýta niðurstöðu hennar. Eins og ég sagði var seinkun á skipan hennar sem varð ekki fyrr en í byrjun þessa árs. Það var einróma niðurstaða nefndarinnar að hún þyrfti þetta heila ár sem henni var upphaflega ætlað til að ljúka störfum. Ég geri út af fyrir sig ekki athugasemdir við það vegna þess að þetta er mikið og stórt starf sem þessi nefnd hefur með höndum og mikilvægt að hún hafi það svigrúm og þann tíma sem hún þarf til að klára þessa vinnu. Ég tel að hún sé að vinna hér mikið og gott starf, hefur haldið 14 fundi og ég mun ýta mjög á eftir því að tímaáætlunin standist um næstkomandi áramót og að nefndin skili niðurstöðu.

Út af fyrirspurn hv. þingmanns um það hvort ekki sé þá ástæða til þess, af því að nefndin hafi ekki lokið störfum, að fresta því að leggja á auðlindaskatta er ég ekki sammála því að það sé tilefni til að bíða eftir starfi nefndarinnar. Áður hafa verið lagðir á auðlindaskattar og við erum bara í þeirri aðstöðu að við þurfum að nýta það svigrúm sem við höfum til að ná niður hinum mikla halla sem er á ríkissjóði og þá getum við bara ekki undanskilið umhverfis-, orku- eða auðlindagjöld. Ef við gerðum það þyrftum við að leggja miklu meiri skatta á einstaklinga eða fyrirtæki í formi tryggingagjalds þannig að ég tel ekki ástæðu til að bíða eftir því að starfi nefndarinnar ljúki. Æskilegt hefði verið að niðurstaða nefndarinnar lægi fyrir en ég ítreka að ég tel mikilvægt að hún skili á þeim tíma sem hún áformar, þ.e. um næstkomandi áramót.