138. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2009.

málefni Sementsverksmiðjunnar.

30. mál
[15:24]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og sömuleiðis þeim þingmönnum sem tekið hafa þátt í þessari umræðu. Það er rétt að Sementsverksmiðjan er fyrirtæki í einkaeign og verksmiðjan hefur gripið til margvíslegra aðgerða til að reyna að bregðast við þeim mikla vanda sem við er að glíma.

Það sem er hins vegar sérstakt við þetta mál er það sem ég vakti athygli á. Málefni Sementsverksmiðjunnar á Akranesi voru tekin upp í ríkisstjórn í lok ágúst. Tveimur ráðherrum var falið að fara yfir málið og skila áliti í þessum efnum. Það er alveg ljóst mál að með þeirri ákvörðun ríkisstjórnarinnar voru vaktar miklar væntingar. Nú hefur hæstv. ráðherra greint frá því að skilað verði auðu, það verði engar sérstakar tillögur gerðar í þessu sambandi. (Gripið fram í.) Heimsóknin í Sementsverksmiðjuna í september hafi verið eins konar kurteisisheimsókn (Gripið fram í.) og hæstv. ráðherra var síðan með sagnfræðilegar vangaveltur um hver þróunin á sementsverksmiðjumarkaðnum hefði verið.

Þessi mál hafa verið rædd í ríkisstjórn. Tveimur ráðherrum var falið málið og einn hæstv. ráðherra greindi frá því opinberlega að ekki væri hægt að gera ráð fyrir öðru af hálfu ríkisstjórnarinnar en að komið yrði fram með sérstakar tillögur til að bregðast við vanda verksmiðjunnar. Ég greindi síðan frá því að það eina sem sést hefði til ríkisstjórnarinnar í þessu máli væri að vera með hótanir um skattlagningu sem geta numið allt að 10% af veltu verksmiðjunnar. Það er alveg augljóst mál að hún mun gera það að verkum að rekstrargrundvöllur verksmiðjunnar fer endanlega veg allrar veraldar. Nú vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort hún vilji þá a.m.k. ekki greina okkur frá afstöðu sinni til þess að leggja þennan orkuskatt á Sementsverksmiðjuna og kolefnisskattinn. Hæstv. ráðherra hefur talað gegn því að þessi skattur verði lagður til að mynda á stóriðjuna (Gripið fram í.) en það hefur enginn ráðherra mér vitanlega talað um að hverfa eigi frá kolefnisskattinum sem hluta af þeim orkusköttum sem verið er að boða. Það er auðvitað sá hluti skattlagningarinnar sem verður erfiðastur fyrir verksmiðjuna. En aðalatriðið við þetta er að búið er að leika mikinn blekkingaleik, það er búið að vekja upp miklar væntingar og hæstv. ráðherra hefur núna í þessari ræðu, skotið þær allar niður.