138. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2009.

málefni Sementsverksmiðjunnar.

30. mál
[15:27]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður fer mikinn í ræðustól. Eins og ég sagði frá áðan fórum við, sú er hér stendur og umhverfisráðherra, í heimsókn í Sementsverksmiðjuna eftir að okkur var boðið af hálfu starfsmanna þangað. Það er vissulega rétt að þessi málefni voru tekin upp hjá ríkisstjórn þar sem hæstv. umhverfisráðherra var beðin um að fylgja eftir hugmyndum um ný sóknarfæri fyrir Sementsverksmiðjuna sem felast í ákveðinni endurvinnslu, sem hv. þingmenn geta spurt hana um og eru gríðarleg tækifæri fólgin í. Sjálfri var mér falið að gefa „rapport“ um stöðuna og það er það sem ég hef gert. (Gripið fram í.) Ég veit ekki hvað hv. þingmaður óskar eftir. Vill hann að við kaupum Sementsverksmiðjuna aftur? Það sem við erum búin að gera er að grípa til almennra aðgerða til að þessi markaður geti farið af stað aftur og það er það sem er vandamálið.

Ég hef sagt frá aðgerðum okkar til að ýta undir frekara viðhald á húsnæði. Það höfum við gert með margþættum aðgerðum. Ég hef sagt frá því að við erum að gefa í hvað varðar opinberar framkvæmdir og það hefur verið margsinnis farið yfir það í þessum stól. Það eru þessar aðgerðir sem skipta öllu máli vegna þess að öll störf eru mikilvæg. Það má ekki heldur gera lítið úr þeim störfum sem tapast hafa suður með sjó vegna samdráttar í hinu innflutta sementi. Öll störf eru mikilvæg, virðulegi forseti. En ég er sammála þeim sem hér hafa talað að verkþekkingunni verðum við að halda og þess vegna erum við að grípa til þessara margþættu aðgerða til að efla þennan markað aftur sem Sementsverksmiðjan er með 63% hlutdeild í. Þannig er staðan. (Gripið fram í.)

Virðulegi forseti. Ég skal ræða orkuskatta við hv. þingmann síðar en spurningarnar voru sértækar og vildi ég því svara þeim beint. Varðandi samkeppnisbrot af hálfu hins aðilans á þessum markaði, um undirboð á markaði, ætla ég ekki að vera sá ráðherra sem stendur í ræðustól og tekur slíka umræðu (Forseti hringir.) vegna þess að slíkt á sitt kæruferli og skal fara þá leið í ríki (Forseti hringir.) sem kallar sig réttarríki.