138. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2009.

ný samgöngumiðstöð í Reykjavík.

38. mál
[15:37]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það er ástæða til að fagna þessari umræðu. Flugstöð, ef flugstöð skyldi kalla, á Reykjavíkurflugvelli er eins og fyrirspyrjandi, hv. þm. Birkir Jón Jónsson, kom inn á einhver hraksmánarlegasta þjónustubygging í landinu og er ekki fólki bjóðandi. Hér verður að hafa eftirfarandi í huga: Innanlandsflugið verður áfram á þessum stað. Það er rómantík en ekki raunsæi að halda því fram að flugið verði flutt á einhvern annan stað, svo sem til Keflavíkur, það út af fyrir sig mundi gera út af við innanlandsflug í landinu. Flutningur flugsins t.d. upp á Hólmsheiði kostar 25–30 milljarða eins og menn þekkja og er því fullkomin rómantík en ekki raunsæi. Menn þurfa í þessu efni að fara að standa í lappirnar og framkvæma í stað þess að búa endalaust til skýrslur.