138. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2009.

ný samgöngumiðstöð í Reykjavík.

38. mál
[15:40]
Horfa

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf):

Frú forseti. Ég hef ákveðið að blanda mér aðeins í umræðuna um samgöngumiðstöð og flugvöll í Reykjavík. Það vill nú þannig til að ég þekki málið gjörla og alla þá áratugasögu sem hæstv. samgönguráðherra fór í gegnum. Það er rétt að benda hv. þingheimi á að sú samgöngumiðstöð sem áætlað er að reisa samkvæmt skipulagi sem samþykkt hefur verið af Reykjavíkurborg á ekki eingöngu að þjóna fluginu. Það er gert ráð fyrir því að hún þjóni almenningssamgöngum, leigubifreiðum og áætlunarbifreiðum í framtíðinni. Í því samhengi vil ég líka upplýsa þingheim um að af hálfu Reykjavíkurborgar liggur fyrir stefnumörkun sem allir flokkar í borgarstjórn Reykjavíkur standa að, sem gengur út á það að flugvöllurinn í Vatnsmýri hopi í áföngum þannig að á endanum fari flugvöllurinn úr Vatnsmýri og eitthvað annað. Það er þverpólitísk samstaða allra flokka, Framsóknarflokksins, Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks. (BJJ: … kveikja í umræðunni.)