138. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2009.

fjármögnun endurbóta á Suðurlandsvegi.

101. mál
[15:57]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda fyrir að hefja máls á þessu mjög mikilvæga máli. Eins og kom fram í ræðu hv. þm. Björgvins Sigurðssonar hefur það hæstu arðsemi, mesta umferð og einna hæsta slysatíðni þannig að verkefnið er mikilvægt. Það er búið að standa lengi til. Stærsti hluti þess er klár skipulagslega og það gengur auðvitað ekki endalaust að við bíðum eftir því að einhver endir náist í vangaveltur um með hvaða hætti endurgreiðslur til að mynda til lífeyrissjóðanna verða. Það hefur komið fram að umræðurnar hafa staðið alveg allt frá því — þær hófust reyndar ekki fyrr en í júní þrátt fyrir að menn væru með hugmyndir um að hefja þetta strax í febrúar. Vinnan virðist ekki hafa gengið sérstaklega vel í sumar. Það mikilvægasta er að ljúka þessum hugmyndum og fara að hefja (Forseti hringir.) framkvæmdir. Það er mjög mikilvægt að koma þeim skilaboðum út til fólks og verktakanna að eitthvað sé á döfinni, eitthvað í pípunum, einhver störf.