138. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2009.

eftirlit og björgunarstörf á Norður-Atlantshafi.

52. mál
[18:31]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ragna Árnadóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessar spurningar sem eru þrjár, ég ætla að svara þeim í eins stuttu máli og mér er unnt en ég gæti í rauninni talað hér í mun lengri tíma en mér er gefinn.

Hvað varðar fyrstu spurninguna þá hefur Landhelgisgæslan, með fulltingi dómsmálaráðuneytisins undanfarin ár eftir að ljóst varð að varnarliðið færi af landi brott, lagt mikla vinnu í að efla samstarf við nágrannaþjóðir á sviði eftirlits, leitar og björgunar á hinu víðfeðmna leitar- og björgunarsvæði umhverfis landið sem Ísland ber ábyrgð á. Samningur við danska sjóherinn, sem fer með yfirstjórn þessara mála umhverfis Grænland og aðstoð við Færeyjar, hefur verið í gildi síðan 1996. Þá var gerður samningur dómsmálaráðherra og danska varnarmálaráðherrans á árinu 2007 um nánara samstarf Landhelgisgæslunnar og danska flotans við eftirlit, leit og björgun á Norður-Atlantshafi. Við brotthvarf varnarliðsins hefur samstarfið aukist til muna og hefur samningurinn verið endurskoðaður. Lokadrög að endurskoðun samningsins bíða þess að verða undirrituð, en í drögunum hefur m.a. verið lögð áhersla á aukin upplýsingaskipti í tengslum við eftirlit. Dönsk varðskip og eftirlitsflugvélar á siglingu eða flugi austur af Grænlandi láta Landhelgisgæslunni í té staðsetningu sína, enda nær ábyrgðarsvæði Landhelgisgæslunnar vegna leitar og björgunar upp að austurströnd Grænlands.

Undanfarin ár hafa dönsk varðskip, þyrlur og eftirlitsflugvélar danska flotans margoft aðstoðað Landhelgisgæsluna vegna eftirlits innan efnahagslögsögunnar þegar þau eru þar á ferð sem og aðstoðað margsinnis við leitar- og björgunaraðgerðir. Sams konar upplýsingaskipti eiga sér stað við dönsk varðskip og eftirlitsflugvélar umhverfis Færeyjar. Þá eru ágætissamskipti við færeysku fiskveiðieftirlitsstofnunina en hún rekur m.a. leitar- og björgunarmiðstöðina í Þórshöfn og tvö varðskip. Þessi samvinna er þó ekki bundin samningi.

Samskipti við Norðmenn á sviði eftirlits og í tengslum við leit og björgun hafa aukist mikið undanfarin ár. Skrifað var undir samning við Kystverket í Noregi um gagnkvæm upplýsingaskipti um skipaumferð á hafinu á milli Íslands og Noregs. Vaktstöð siglinga í Noregi sem staðsett er í Vardö upplýsir Landhelgisgæsluna um alla hugsanlega skipaumferð sem gæti verið á ferð frá norsku hafsvæði áleiðis til Íslands eða um íslenska efnahagslögsögu. Það sama gerir stjórnstöð Landhelgisgæslunnar gagnvart norsku stjórnstöðinni í Vardö.

Síðla árs 2008 var undirritaður samningur á milli yfirstjórnar varnar- og eftirlitsmála í Norður-Noregi og Landhelgisgæslunnar. Samkvæmt samningnum skal skipst á upplýsingum um sérstaka skipaumferð, hafa sérstaka tengiliði tiltæka vegna samvinnu, bjóða upp á gagnkvæma þjálfun og gagnkvæma starfsþjálfun einstakra starfsmanna. Nú þegar hefur þessi samvinna orðið til þess að tvö norsk varðskip hafa haft viðkomu á Íslandi og æft og starfað með einingum Landhelgisgæslunnar, ásamt því að yfirmaður í norsku strandgæslunni hefur verið í starfsþjálfun hjá Landhelgisgæslunni og skipstjórnarmaður hjá Landhelgisgæslunni hefur verið í starfsþjálfun hjá norsku strandgæslunni.

Samskipti stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar við leitar- og björgunarmiðstöðina í Bodö og Stafangri, og þá sérstaklega Bodö sem sér um slíkar aðgerðir fyrir Norður-Noreg, hafa um árabil verið mikil og fagmannleg, en þær tilheyra norsku Redningstjenesten og eru í nánu samstarfi við Kystverket, norsku strandgæsluna og yfirstjórn varnar- og eftirlitsmála í Norður-Noregi. Þá fær Landhelgisgæslan einn af stofnaðilum að North Atlantic Coast Guard Forum árið 2007, en samtökin samanstanda af 20 löndum sem eiga hagsmuna að gæta við norðanvert Atlantshaf og Eystrasaltið.

Síðla árs 2008 var skrifað undir samkomulag við bandarísku strandgæsluna um nánara samstarf á sviði eftirlitsleitar og björgunar og bandaríska strandgæslan gerir m.a. út langdrægar eftirlits- og björgunarflugvélar sem staðsettar eru á Nýfundnalandi yfir ákveðinn hluta ársins vegna hafísseftirlits og tekur það vélarnar einungis nokkrar klukkustundir að fljúga að suðvesturmörkum ábyrgðarsvæðis Landhelgisgæslunnar vegna leitar og björgunar á Norður-Atlantshafi. Þá hefur undanfarin ár verið unnið að því að bæta Íslandi, og þá Landhelgisgæslunni, sem ábyrgðaraðila inn í samkomulag milli Bretlands, Kanada og Bandaríkjanna er varðar leit á Norður-Atlantshafi.

Ég gæti rakið fleira hér en tíminn leyfir það ekki.

Hvað varðar aðra spurningu þá hefur undirbúningur einkum snúið að eflingu tækja auk eflingar alþjóðlegs samstarfs sem ég rakti áðan. Starfsemi Gæslunnar er miðuð við þau verkefni sem eru í gangi hverju sinni og verkefnisstjórn Landhelgisgæslunnar tekur ávallt mið af þeim breytingum sem kunna verða á aðstæðum.

Varðskipin Týr og Ægir voru bæði send til endurbóta frá 1997–2006, þá er nýtt varðskip sem við ræddum í þessum sal, ný fullkomin eftirlits- og leitar- og björgunarflugvél hefur komið til landsins og þyrlureksturinn hefur þó þrátt fyrir allt aukist undanfarin ár en brotthvarf varnarliðsins stuðlaði náttúrlega að breytingum í því sambandi.

Hvað varðar það að Landhelgisgæslan sé í stakk búin að taka við auknum verkefnum, þá hefur Landhelgisgæslan stefnt að því að geta gert það á sem bestan hátt en ég mun kannski nota tækifærið í seinna svari að koma aðeins betur inn á það.