138. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2009.

úrbætur í fangelsismálum.

86. mál
[18:53]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. fyrirspyrjanda Vigdísi Hauksdóttur fyrir góða og gagnmerka fyrirspurn og einnig hæstv. ráðherra fyrir skilmerkileg svör. Þetta er mál sem við verðum augljóslega að bregðast dálítið skjótt við og ég tek undir orð hæstv. ráðherra að það er þess virði að velta fyrir sér öllum mögulegum lausnum og ekki hafna neinni fyrir fram. Ég vil þó hvetja ráðherrann í sambandi við uppbyggingu á fangelsi að horfa til þess sem menn hafa sýnt fram á að mjög hagkvæmt er að auka við þjónustuna á Litla-Hrauni og reyna að taka þar við fleirum, þannig að sá þáttur gleymist ekki. Ég veit að m.a. er verið að skoða að nýta þá möguleika að færa fangaverði til á Suðurlandi með því að nýta húsnæðið á Suðurlandi. Ég held að mjög þarft væri að reyna að spara eins og hægt er og leita allra lausna. En það verður að ráða bót á því, að menn geti komist í þá afplánun sem þeir eru skyldaðir til.