138. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2009.

gerð samninga um flutning dæmdra manna.

95. mál
[19:09]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ragna Árnadóttir):

Virðulegi forseti. Ég ætla aðeins að undirstrika það að ef fangi vill ekki fara sjálfur er niðurstaðan sú að hann fer en það tekur lengri tíma og það þarf aðeins nánari málsmeðferð.

Ég tek orð hv. fyrirspyrjanda sem góða hvatningu til þess að huga að þessum málum sérstaklega, huga að því hvort hægt sé að gera samkomulag við fleiri ríki eins og gert hefur verið við Litháen til þess að flýta málsmeðferðinni. Það er vissulega umhugsunarefni að hér skuli vera slíkur fjöldi erlendra brotamanna, vissulega eru margir íslenskir brotamenn líka, en þá er spurning hvort það sé slíkt ástand hér á landi að það sé tilefni til að huga að fleiri leiðum til að stemma stigu við brotamönnum þannig að þeir fái þá kannski ekki endilega tækifæri til að koma hingað og fremja afbrot, og hvort það sé möguleiki, lagalegur og praktískur möguleiki á því að fara í aðgerðir eins og tímabundið vegabréfaeftirlit hér á landi, en það er allt eitthvað sem þarf að skoða. En ég tek það fram varðandi flutning fanga að ég er sammála hv. fyrirspyrjanda í því að það þarf að huga að því hvort hér sé hægt að gera betur.