138. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2009.

stöðugleikasáttmálinn.

[10:37]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Eins og komið hefur fram í fréttum ganga viðræður ríkisstjórnarinnar og aðila vinnumarkaðarins afar brösulega og má kannski segja að stöðugleikasáttmálanum sé haldið í öndunarvél í augnablikinu. Eitt stærsta atriðið í stöðugleikasáttmálanum er persónuafslátturinn sem snýr að hagsmunum láglaunafólks.

Í yfirlýsingu ríkisstjórnar frá 22. júní 2006 var hann hækkaður úr 29.029 kr. í 32.150 kr. og var hann síðan endurskoðaður árlega, í fyrsta sinn frá 1. janúar 2008, og breyttist hann í samræmi við breytingar á vísitölu neysluverðs næstu 12 mánuði eftir það. Það var gríðarlega góð og mikil breyting að persónuafslátturinn skyldi eiga að fylgja verðlagi.

Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 17. febrúar 2008 átti persónuafslátturinn að hækka um 2.000 kr. á ári frá árinu 2009, það ár um 2.000 kr., árið 2010 um 2.000 kr. og árið 2011 3.000 kr. Eins og ég sagði áðan skiptir þetta gríðarlega miklu máli fyrir láglaunafólk Það á von á þessari hækkun nú um áramótin. Ég beini þeirri spurningu til hæstv. forsætisráðherra hvort láglaunafólk megi reikna með því að af þessum hækkunum verði, vegna þess að þetta er eitt af þeim stóru atriðum sem standa út af borðinu í samræðum við aðila vinnumarkaðarins um (Forseti hringir.) stöðugleikasáttmálann?