138. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2009.

bréf forsætisráðherra til forsætisráðherra Bretlands og Hollands.

[10:58]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Það þarf ekki að koma á óvart að hæstv. forsætisráðherra, þrátt fyrir að hafa helgað sig velferðarmálum, þekki ekki þróun þeirra mála í liðnum ríkisstjórnum. Hæstv. forsætisráðherra beitir sér nú fyrir lagasetningu sem felur í sér meiri velferðarskerðingu en nokkur lög í sögu landsins. Það gerir ráðherrann án þess, að því er virðist og eins og við höfum séð í dag, að hafa hugmynd um hvað í lögunum felst. Aftur og aftur er hæstv. forsætisráðherra staðin að því að vita ekki hvað felst í frumvarpinu um Icesave-samkomulagið þó að þar geti munað hundruðum milljarða kr. sem feli í sér velferðarskerðingu fyrir íslensku þjóðina.

Hins vegar hlýtur maður að velta því fyrir sér hvort hæstv. forsætisráðherra velti því yfir höfuð fyrir sér hvað í þessu felist enda hefur farið lítið fyrir því að haldið væri á málstað Íslendinga í þessu máli. Reyndar lét hæstv. forsætisráðherra sig hafa það eftir töluverðan þrýsting að skrifa bréf í lok ágúst til forsætisráðherra Bretlands og Hollands. Hugsanlega var sendur tölvupóstur eða SMS, ég skal ekki segja um það, en alla vega er getið um það á síðu forsætisráðuneytisins að bréf hafi verið sent til að biðja um fund með þessum ráðherrum til að ræða Icesave-málið.

Spurningin er því þessi: Hver voru svör forsætisráðherra Bretlands og Hollands við þessari málaleitan íslenska forsætisráðherrans?