138. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2009.

nauðungarsala.

90. mál
[11:09]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Steinunni Valdísi Óskarsdóttur fyrir yfirferð þessa frumvarps. Ég hef svo sem litlu við það að bæta, það eru margar fjölskyldur sem eiga um mjög sárt að binda og eru þannig staddar að fyrir liggur uppboð á eignum þeirra. Þetta frumvarp er lagt hér fram með stuðningi allra flokkanna á Alþingi til þess að lina aðeins þau áhrif sem af þessu kunna að skapast, þá er fresturinn lengdur áður en fólk þarf að yfirgefa húsnæði sitt.

Fyrst var talað um að sá frestur ætti að gilda til 31. janúar en það var samkomulag í nefndinni um að fresta því enn frekar þannig að áhrifa þessara laga gæti til 28. febrúar 2010. Það er gert í ljósi þess að hér urðu miklar hörmungar á síðasta ári og við þingmenn Framsóknarflokksins höfum ætíð sagt að við erum tilbúin til að gera allt sem við getum til þess að bjarga heimilum og fjölskyldum í þessu landi eftir þær ógöngur. Þetta er einn þáttur í því og þess vegna tekur Framsóknarflokkurinn heils hugar undir þessi orð og styður þetta frumvarp.