138. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2009.

nauðungarsala.

90. mál
[11:11]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Virðulegur forseti. Mig langar bara að leggja áherslu á það, eftir að hafa verið áheyrnarfulltrúi í allsherjarnefnd, að hér er um mjög mikilvægt mál að ræða og þörf úrbót fyrir almenning sem er í þeirri ömurlegu stöðu að missa hugsanlega heimili sitt eða íbúðarhúsnæði. Á þessum umbrotatímum eru svona úrræði, þótt tímabundin séu, alveg sjálfsögð og er það mjög virðingarvert að þingmenn skuli beita sér fyrir svona þörfum úrbótum.

Mig langar að benda á í tengslum við þetta mál að hér síðar í dag verður vonandi tekið á dagskrá frumvarp til laga um samningsveð, flutningsmaður er Lilja Mósesdóttir og fleiri. Þar kemur einnig fram mjög mikilvæg úrbót fyrir almenning hvað varðar samningsveð, en eins og kunnugt er lenda íbúðareigendur og lántakar í mörgum tilvikum í þeim hremmingum að veðið í eigninni er orðið miklu hærra en eignin. Þar með gerist það sjálfvirkt að lánveitandinn tekur veð í lántakanum sjálfum, þ.e. í hans eigin persónu, og menn sitja kannski uppi með það árum saman að vera hundeltir af lánveitendum út og suður og er nánast ómögulegt að koma undir sig fótunum aftur. Hér er einnig um að ræða mjög mikilvægar úrbætur sem eru fyllilega tímabærar vegna þess efnahagsumróts sem við búum við og er ánægjulegt að sjá bæði þessi mál hér í þinginu á einum og sama deginum.