138. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2009.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

5. mál
[11:46]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég er eindreginn stuðningsmaður þess að hér verði sett almenn lög um þjóðaratkvæðagreiðslur. Ég hef verið áhugamanneskja um þjóðaratkvæðagreiðslur í mörg ár og löngu fyrir þá alvarlegu atburði sem urðu hér í janúar 2009 eða hvaða dagsetning er notuð í greinargerðinni þannig að ég fagna því að nú eru á leiðinni tillögur um að koma á þjóðaratkvæðagreiðslum á Íslandi. Á hinn bóginn vitum við að þó að við samþykkjum núna frumvarp um þjóðaratkvæðagreiðslur geta þær einungis verið ráðgefandi og ég tel mjög brýnt að stjórnarskrá verði breytt þannig að þjóðaratkvæðagreiðslur verði bindandi.

Í þessu frumvarpi er nefnt að 10% atkvæðisbærra manna geti óskað eftir þjóðaratkvæðagreiðslu, ég held að þessi tala sé nokkuð sem þurfi að ræða nánar í allsherjarnefnd og sjálfsagt að gera það. Einnig er vitnað til þess að 1/3 þingmanna geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu og í greinargerð er vísað til þess hvernig farið er með þessi mál í Danmörku. Ef ég þekki rétt til getur 1/3 þingmanna krafist þess að lagafrumvarp fari fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu í Danmörku og ég held að það sé mjög góður ventill ef þannig má að orði komast því að það hlýtur að setja framkvæmdarvaldinu skorður ef það getur átt von á því að 1/3 þingmanna krefjist þess að lagafrumvörp sem lögð eru fram fari fyrir þjóðaratkvæði. Á hinn bóginn á þetta alls ekki við um öll mál í Danmörku eins og reyndar er getið um í greinargerð. Mig langar að lesa upp úr greinargerðinni, með leyfi forseta:

„Mikilvægt er að hafa í huga að mjög víða eru í gildi einhvers konar takmarkanir um hvaða mál raunhæft og eðlilegt er að útkljá í þjóðaratkvæðagreiðslum. Vel má hugsa sér að fjárlög og skattheimta hvers árs sem og ýmis önnur árleg löggjöf sem sett er árlega til viðhalds daglegum rekstri ríkisins verði undanskilin. Einnig er mikilvægt að almennum hegningarlögum sé ekki hægt að breyta með slíkri einfaldri atkvæðagreiðslu.“

Ég tel þetta mjög mikilvægt og ég tel einnig mjög mikilvægt að hér er talað um fjárlög og annað slíkt, t.d. brýnar aðgerðir í efnahagsmálum sem vonandi þurfa ekki að fara fram, helst aldrei, en þó að það sé á 10 ára fresti er ég ekki alveg viss um að slík mál eigi heima í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég segi þetta með fullri virðingu fyrir fólki því að ég ber mikla virðingu fyrir kjósendum en ég held að þetta verði einnig að hafa í huga. Ég tel að þetta þurfi að ræða í allsherjarnefnd.

Að öðru leyti vil ég bara segja að ég fagna þessu. Mér finnst það svolítið — ég veit ekki alveg hvernig ég á að orða það en það má kannski nota jafnsterkt orð og að það hryggir mig að það sé slík vantrú á það kosningakerfi sem við höfum hér, sem eru yfirkjörstjórnir, að fólk vilji leggja til að sett verði upp sérstök skrifstofa til að sjá um þjóðaratkvæðagreiðslur af þessu tagi. (BirgJ: Að fenginni vondri reynslu.) Já, ég segi að það hryggir mig að fólk hafi slíka vantrú á því og ég tel að það eigi að líta til þess með það í huga að það verður náttúrlega að tryggja að fólk hafi trú á því sem gert er eins og í þessum málum.