138. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2009.

álversuppbygging á Bakka við Húsavík.

[13:41]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ef þetta er málflutningurinn, að Samfylkingin hafi sett af stað einhverjar tafir vegna úrskurðar um sameiginlegt umhverfismat, þekkir hv. þingmaður ekki vel til verksins. Þarna hefur almennt vantað fjármagn til að geta farið í þær rannsóknarboranir sem til þarf.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að munnhöggvast hér við hv. þingmann um þennan ódýra málflutning hans, heldur ætla ég að segja frá því að vilji okkar og þessarar ríkisstjórnar er að ráðast í stórfellda atvinnuuppbyggingu á Norðausturlandi. Það höfum við sýnt í verki núna með því að þann 22. október sl. ritaði sú er hér stendur fyrir hönd ríkisstjórnarinnar undir viljayfirlýsingu við sveitarfélögin fyrir norðan, þ.e. Norðurþing, Skútustaðahrepp og Þingeyjarsveit, um samstarf á sviði orkurannsókna, orkunýtingar og atvinnuuppbyggingar á svæðinu. Þetta er alveg gríðarlega dýrmætt vegna þess að þarna eru öll þessi sveitarfélög sem að málinu koma orðin hluti af þessari viljayfirlýsingu. (JónG: Gömul lumma.) Það sem við erum sammála um er að nýta eigi jarðvarmann í Þingeyjarsveit til stórfelldrar atvinnuuppbyggingar á svæðinu. (JónG: Í hverju?) Það felst í tvennu og ég heyri að hv. þm. Jón Gunnarsson er eitthvað spældur yfir þessum tíðindum en ég held að hann ætti að hlusta vel.

Virðulegi forseti. Í þessari viljayfirlýsingu eru tveir alveg gríðarlega mikilvægir þættir, í fyrsta lagi er í henni kveðið á um það að sett verði á laggirnar verkefnisstjórn sem við erum að verða búin að skipa og hún hefur það eina verkefni að sækja atvinnu inn á þetta svæði. Í verkefnisstjórninni eiga sæti fulltrúar allra þessara sveitarfélaga, Landsvirkjunar, Atvinnuþróunarfélagsins í Þingeyjarsýslum og iðnaðarráðuneytisins.

Í öðru lagi ætlum við að koma orkurannsóknum þarna aftur af stað með því að finna nýtt fjármagn inn í verkefnið með því að búa til eitt öflugt félag utan um alla orkuöflunina á svæðinu, þ.e. Bjarnarflag, Kröflu og líka Þeistareyki. Þetta verður eitt félag og nú er unnið að því undir forustu Landsvirkjunar að svo geti orðið þannig að menn geti hafið þarna rannsóknir að nýju. Við þurfum að koma orkunni, sem þarna er ónýtt núna en menn vita að er á svæðinu, í vinnu sem allra fyrst. Það er það eina sem vakir fyrir okkur með þessari viljayfirlýsingu. Það er alveg rétt að undanfarin þrjú ár hafa Norðurþing, eitt sveitarfélaganna fyrir norðan, ríkisstjórn Íslands og Alcoa verið aðilar að sameiginlegri viljayfirlýsingu vegna undirbúnings að álveri á Bakka frá 16. maí árið 2006. Alcoa er ekki aðili að þessari viljayfirlýsingu en er eftirleiðis jafnsett öðrum mögulegum samstarfsaðilum um afnot orkunnar. Það er auðvitað staðreynd að Alcoa er enn þá aðili að þessu sameiginlega umhverfismati þarna fyrir norðan. En verkefni þessarar verkefnisstjórnar er heldur ekki bara að sitja og bíða og vonast til þess að eitthvað komi, heldur er verkefni hennar að sækja vinnu inn á svæðið. Það hefur verið lenska hér á landi undir forustu Framsóknarflokksins í atvinnumálum að sitja og bíða, fá fyrirtækin í hausinn (VigH: Rangt.) og fara svo að vinna fyrir þau. En við ætlum að gera þetta öðruvísi, við ætlum að skilgreina hvað við viljum og fara svo og sækja það. (GBS: Þvílík snilld.) Það er það sem þessi verkefnisstjórn mun gera. (JónG: Sækja hvað?)

Virðulegi forseti. Fleiri aðilar hafa verið áhugasamir um svæðið þarna fyrir norðan, ekki síst núna þegar þeir sjá að þarna eru rannsóknirnar að fara aftur af stað. Það er markmiðið í kjölfar þessarar yfirlýsingar að strax að ári, næsta haust, verði rannsóknum og undirbúningsvinnu lokið þannig að unnt verði að ganga til samninga um atvinnuuppbyggingu á svæðinu, þá viti menn hvaða orku svæðið hefur upp á að bjóða þannig að Alcoa geti þá tekið ákvörðun, eða aðrir aðilar.

Virðulegi forseti. Sú gríðarlega atvinnuuppbygging sem er að verða í hátækniiðnaðinum á höfuðborgarsvæðinu er gríðarlega jákvætt skref. En það breytir því ekki að það er ekki vilji okkar að Ísland sporðreisist á suðvesturhorninu með þungann í atvinnumálum, heldur ætlum við að fjölga störfum á landsbyggðinni (HöskÞ: Hvernig?) og þá setjum við í þessu verkefni fókusinn (Forseti hringir.) á norðausturhornið (HöskÞ: Norðvesturhornið.) og byggjum á þeirri orku sem þar er.