138. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2009.

heimild til samninga um álver í Helguvík.

89. mál
[14:25]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir orð hæstv. iðnaðarráðherra um mikilvægi þess að skapa slíkt rammasamkomulag og ég get fullvissað ráðherrann um stuðning minn og framsóknarmanna til þess.

Varðandi það sem ég sagði, „þótt fyrir hefði verið“, var ég að vísa til þess atvinnuástands sem er á Suðurnesjum og þeirrar nauðsynjar að fara í öll þau verkefni sem hafa verið á borðinu. Ég hvet ráðherrann til dáða í þeim málum og að flýta verkefnunum eins og hægt er.

Ég sakna þess hins vegar að heyra ekki nein svör hæstv. ráðherra um þá yfirlýsingu að trúlega mundu orkuskattarnir ekki hafa nein áhrif í Helguvík, eins hvort ráðherra getur fullvissað okkur um að ríkisstjórnin sé samstiga og komi fram sem einn aðili og að við eigum ekki von á því að taka umræðu, eins og ég sagði áðan, um umdeildar ákvarðanir eftir 2–3 ár og tafir sem áttu að vera einn dagur en reyndust vera kannski 2–3 ár.