138. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2009.

heimild til samninga um álver í Helguvík.

89. mál
[14:34]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er gott að geta komið þessu máli hér inn í sali þingsins. Það er gríðarlega ánægjulegt að við höfum náð að ljúka gerð fyrsta samnings, fjárfestingarsamnings, um gagnaver hingað til lands. Drög að slíkum samningi hafa verið árituð og nú er það næsta verkefni — það er verið að smíða frumvarp í iðnaðarráðuneytinu þannig að lagaheimild fáist fyrir gerð eiginlegs frágangs þessa fjárfestingarsamnings. Þessi samningur er ísbrjótur, virðulegi forseti, fyrir gagnaversuppbygginguna hér á landi. Margir hafa viljað tala þetta niður en gagnaversuppbygging og gagnaversvæðingin á Íslandi er orðin staðreynd með þeim samningi sem undirritaður var við Verne. Það er mjög ánægjulegt að segja frá því að nú eru hátæknifyrirtæki á borð við CCP að auglýsa eftir hátt á annað hundrað manns í störf, Marorka er að auglýsa eftir tugum manna í störf. Í gær opnaði (Forseti hringir.) ég heilsutæknigarð þar sem 35–40 eru að byrja að vinna. Það eru því gríðarlega góðar fréttir mjög víða (Forseti hringir.) í atvinnulífinu og þá ekki síst á hátæknisviðinu.