138. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2009.

heimild til samninga um álver í Helguvík.

89. mál
[14:49]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð eiginlega að koma hér upp vegna orða hv. þingmanns um það að ef menn fara þá leið sem er — ég tek fram að þetta er hugmynd sem er uppi á borði um útfærslur á þessum orkusköttum, að hugsanlegar nýframkvæmdir verði undanþegnar, sem ég tel að sé eðlilegt. Ástæðan er sú að það er ekkert óeðlilegt við það að vera með ívilnanir til fyrirtækja á meðan þau eru á uppbyggingarstigi hér á landi. Þetta er gert mjög víða um heim og þetta er það sem við ætlum að gera í þeirri rammalöggjöf um ívilnanir sem ég hef áður nefnt.

Hér er um að ræða, og ég er sammála hv. þingmanni, að við eigum að eyða óvissunni sem fyrst og að því erum við að vinna hörðum höndum. Ég vonast til þess að við náum að ljúka því sem allra, allra fyrst. Hv. þingmaður virtist ofsalega hneykslaður á því að nýfjárfestingum yrði mismunað þannig að þær slyppu við orkuskattinn. Það þykir mér merkileg latína hjá hv. þingmanni sem studdi hér ríkisstjórnir sem hafa verið að gera fjárfestingarsamninga sem gera ekkert annað en að undanþiggja einstaka fyrirtæki frá því að greiða sömu skatta og sömu gjöld og almennt atvinnulíf í landinu.

Frá þessu erum við, virðulegi forseti, að færa okkur til þess að komast út úr því að vera með mismunun gagnvart atvinnulífinu út frá einstaka fyrirtækjum þannig að við búum til almenna rammalöggjöf fyrir allar nýfjárfestingar, byggða á stærðum þeirra.

Mér finnst svolítið merkileg samlíking hv. þingmanns á „einn fugl í hendi og tveir í skógi“. Við erum með marga fugla í hendi, virðulegi forseti. Ég sagði áðan frá því að við erum búin að rita undir fjárfestingarsamning við Verne, gagnaverið suður með sjó. Það er á fullri ferð. Atvinnulífið í hátækniiðnaði er á fleygiferð. (Forseti hringir.) Við vorum að opna heilsutæknigarð í gær þar sem eru tólf fyrirtæki, 40 starfsmenn.

Virðulegi forseti. Við erum bara líklega með of marga fugla í hendi þannig að hv. þingmaður er orðinn ringlaður.