138. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2009.

heimild til samninga um álver í Helguvík.

89. mál
[14:53]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eitthvað virðist þetta vefjast fyrir hv. þingmanninum vegna þess að hér er ekki um orðræðu um eitthvað annað að ræða. Ég hef bara talið upp hreinar staðreyndir. Fjárfestingarsamningur um gagnaver, er það orðræða um eitthvað annað? Með þessum orðum sínum þykir mér hv. þingmaður gera heldur lítið úr þeirri atvinnuuppbyggingu sem verður þar suður með sjó og fylgir gagnaverinu.

Virðulegi forseti. Mér þykir alltaf mjög erfið og leiðinleg sú umræða að atvinnulífið skiptist þannig að við séum annaðhvort með álver og síðan eitthvað annað. Það er ekki svoleiðis. Við erum með eitt atvinnulíf sem samanstendur af fjölbreyttum stoðum, ferðaþjónustu, fiskvinnslu, landbúnaði, hátækniiðnaði, álverum og þannig eigum við að hafa það, þannig atvinnulíf eigum við að byggja upp og hætta að etja alltaf saman að það sé bara álver versus eitthvað annað. Þetta er ekki svoleiðis og lífið er ekki svona einfalt.

Varðandi Bakka og umræðuna sem fór fram áðan þykir mér það líka ansi sérstök túlkun á því sem þar var sagt ef menn telja að þar séum við búin að henda Alcoa frá borði. Það er einfaldlega þannig að við vorum að skuldbinda okkur til atvinnuuppbyggingar fyrir norðan og við vorum að skuldbinda okkur til þess að vinna að því að orkuöflunin gæti farið þarna af stað. Ef hv. þingmaður hefur ekki áttað sig á því þá er það þannig að ef það liggur ekki fyrir hversu mikil orka er á svæðinu er ekki hægt að taka neina ákvörðun um stóruppbyggingu.

Það er þar sem við erum að gefa í með þessari viljayfirlýsingu fyrir norðan. Við erum að gefa í varðandi orkuöflunina þannig að það geti legið fyrir strax næsta haust hversu mikil orka er á svæðinu þannig að kaupandi geti tekið ákvörðun, (Forseti hringir.) byggða á einhverjum raunverulegum forsendum. Ég bið hv. þingmann að gera ekki lítið úr því eða tala það niður eins og menn hafa verið að gera hér.