138. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2009.

heimild til samninga um álver í Helguvík.

89. mál
[15:11]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans, hún var um margt merkileg, en það eru nokkur atriði sem mig langar að koma inn á.

Hv. þingmaður spurði mig ágætrar spurningar, sem hann endurtók frá hv. þm. Birgi Ármannssyni, sem var sú hvað ég vildi segja við Suðurnesjamenn sem ætla að fara í göngu eða blysför í dag. Það er mjög einfalt, virðulegi forseti, gagnvart þessu verkefni veit ég ekki betur en að við stöndum hér í dag til að staðfesta fjárfestingarsamning vegna Helguvíkur. Það eitt hefur staðið upp á okkur stjórnvöld. Því erum við að ljúka hér í meðförum þingsins og vonandi gerum við það hratt og vel.

Í öðru lagi, virðulegi forseti, hef ég sagt það hér áður í andsvari við hv. þm. Birgi Ármannsson að ég tel málefnið varðandi Suðvesturlínu vera smámál í hinu stóra samhengi og tel ekki rétt að beina sjónum sínum að því vegna þess að það sem ég hef kannski mestar áhyggjur af og það sem menn þurfa að vinna að snýr ekki að ríkisstjórninni heldur þeim orkufyrirtækjum og sérstaklega öðru þeirra sem eru í eigu einkaaðila og í eigu sveitarfélaga og það er fjármögnun á orkuöfluninni fyrir þetta verkefni. Þar er mesta óvissan. Því miður er það svo.

Virðulegi forseti. Við Suðurnesjamenn vil ég líka segja: Það er verið að byggja upp glæsilegt gagnaver suður með sjó sem við höfum nú staðfest fjárfestingarsamning vegna. Carbon Recycling International er að fara af stað þar með framkvæmdir þar og menn ætla að fara að vinna metanól úr CO 2 í Svartsengi. Þar skapast störf. Í ferðaþjónustunni leggjum allt kapp á það að beina sjónum að heilsutengdri ferðaþjónustu á Íslandi og flaggskipið þar, Bláa lónið, er á Suðurnesjum og einnig er á gamla Keflavíkursvæðinu að byggjast upp glæsileg hátæknifyrirtæki þar sem (Forseti hringir.) tugir manna hafa tekið til starfa.

Það er því bjart fram undan á Suðurnesjum. Það sem þarf að leysa er að (Forseti hringir.) þau sveitarfélög og einkaaðilar sem þarna eiga fyrirtæki til orkuöflunar verða að leysa fjármögnunina.