138. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2009.

vörumerki.

46. mál
[16:18]
Horfa

Frsm. minni hluta viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Nú hef ég ræðu mína aftur í von um að engin fleiri mistök hafi verið gerð og ég fái að vera hér eitthvað áfram en það er svo sjaldan sem virðulegur forseti gerir mistök þannig að það er bara gott að það gerist endrum og eins sem sýnir að öllum getur orðið örlítið á.

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Magnúsi Orra Schram fyrir sína ræðu. Ég held að ástæðan fyrir því að hv. þm. Magnús Orri Schram talaði með þessum hætti um Evrópusambandið sé ekki bara vegna þess að hann langi svo mikið í Evrópusambandið, eins og svo marga aðra í Samfylkingunni, að hann geti ekki opnað munninn án þess að minnast á það, ég held að það sé ekki ástæðan. Ég held að ástæðan sé, eins og kom skýrt fram hjá hv. þingmanni, að hann sé algerlega á móti málinu. Nema hvað? Alveg eins hv. þm. Eygló Harðardóttir er líka algerlega á móti málinu. Nema hvað? Þetta mál getur ekki verið verra.

Það var einn ágætur maður sem talaði alltaf um kranablaðamennsku. Þetta er kranalagasetning, hrein og klár kranalagasetning. Hvað er um að ræða hér? Það er verið að fara þvert gegn hagsmunum Íslands, alveg klippt og skorið. Það er verið að reyna að gera okkur erfiðara fyrir. Það stendur meira að segja í umsögn um frumvarpið og allir umsagnaraðilar gengust við því: Jú, þetta er alveg svakalega vont mál, þetta hækkar vöruverð og þetta minnkar samkeppni. Það finnst enginn maður nema þeir sem hafa beinna hagsmuna að gæta og vinir mínir í Vinstri grænum mundu kalla auðvaldið, ákveðinn hópur þess, það er ákveðinn hópur, þröngur hópur sem hefur hagsmuna að gæta. Þeir munu hagnast meira þegar við erum búin að löggilda þetta, ef svo fer að þessi kranalagasetning verði að lögum innan nokkurra daga sem er vilji meiri hlutans.

Hér kom hv. þm. Magnús Orri Schram með vonlausan málstað, eins vondan og hann getur orðið, og hann leitaði að einhvers konar rökum fyrir því. Þess vegna sagði hv. þingmaður: Þetta er allt ómögulegt, það er alveg rétt, en það er vegna þess að við erum í EES en ekki alveg í ESB, það er nefnilega svo gott að vera í ESB. Og eins og aðrir þingmenn Samfylkingarinnar tala þeir alltaf um það að ESB sé einhvers konar Hálsaskógur eftir að Mikki refur varð grænmetisæta. Það er mikill misskilningur, virðulegi forseti, það er gríðarlegur misskilningur. Stóra einstaka málið er þetta að EES-samningurinn er sko ekki gallalaus, Icesave-málið er skýrt dæmi um það. Það var nákvæmlega svona, menn tóku hér upp tilskipun sem er algerlega galin. Að vísu vildu sumir þingmenn — einn þeirra er hæstv. forsætisráðherra núna, einn hæstv. fjármálaráðherra, einn fyrrverandi hæstv. heilbrigðisráðherra — gera vont mál miklu verra og lögðu til að við gengjum lengra en gert var í þessari tilskipun. Á það var sem betur fer ekki fallist og hefur það verið reiknað út að það hefði kostað íslenska þjóð 700 milljarða í viðbót ef menn hefðu samþykkt þær breytingartillögur. En án þess að skoða hvað þetta fól í sér, nákvæmlega með þessari nálgun að þetta sé bara eitt af því sem við verðum að gera, var það samþykkt nákvæmlega eins og hér, við verðum að gera það.

Hv. þm. Magnús Orri Schram kom hér og vísaði í bók, að ég held Eiríks Bergmanns, sem er einn helsti Evrópusambandstrúboðinn hér á landi, ágætisdrengur sem fékk mig einu sinn í maraþonhlaup en ég ætla ekki að fara nánar út í það hér, en það breytir því ekki að við vitum öll hverjar eru skoðanir hans hvað þetta varðar og það er þessi lína að við séum algerir farþegar í EES-samstarfinu og getum engu neitt um það ráðið.

Staðreyndin er sú að það er ótrúlega mikið sem EFTA-ríkin geta haft áhrif inn í EES og staðreyndin er sú að Íslendingar hafa oft gert það. Þeir hafa gert það á þeim sviðum þar sem menn hafa verið vel vakandi og það gerist með því að koma að undirbúningi tilskipunar. Ég þekki þetta mál mjög vel vegna þess að ég var formaður í þingmannanefnd EFTA. Við vorum m.a. í samráði við ýmsa aðila og komum athugasemdum að þegar menn voru að byrja að undirbúa tilskipanir. Það er besta leiðin til þess. Einnig geta t.d. ráðherrar, og ég gerði það þegar ég var heilbrigðisráðherra, þá fór ég og talaði við ráðherra í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins vegna þess að út af Evrópusambandinu erum við með haftaverslun í lyfjum, haftaverslun sem hefur gert það að verkum að hér hefur verið gríðarlega hátt verð á lyfjum. Málaleitanin varð alla vega til þess að ákveðnir hlutir voru settir í gang og af hverju? Það er vegna þess að þeir vildu ekki láta það um sig spyrjast og vildu helst ekki fá þá umræðu að þessi haftaverslun væri að taka litla þjóð og kyrkja hana hvað varðar lyfjaverð.

Ef við förum inn í Evrópusambandið liggur alveg fyrir að það eru fleiri leiðir færar. Við fáum t.d. þingmenn á Evrópusambandsþingið, hvorki meira né minna en fimm af 755. Ég á ágætisvini á Evrópusambandsþinginu. Síðast þegar ég talaði við einn vin minn sem er búinn að vera þar í mörg ár hafði hann ekki fengið að ávarpa það, hann er að vísu ekki mjög hrifinn af Evrópusambandsþinginu og var settur frekar aftarlega í röðina en 750 manns er svona svipað og lítið þorp á Íslandi og menn geta sett það í samhengi hvernig það fúnkerar ef við margföldum þingmenn hér með 12 að þá geta menn séð um hvað er að ræða þar varðandi stærðina og skilvirknin er í samræmi við það.

Við erum lítil þjóð og það er bara staðreynd og það þýðir að við höfum ekki jafnmikil áhrif og stórþjóð en það þýðir ekki að við höfum ekki áhrif. Og það þýðir ekki að við getum ekki sett niður fótinn þegar farið er þvert gegn hagsmunum okkar. Við vorum í vanda vegna þess að Liechtenstein og aðrar þjóðir sem eru í samstarfi við okkur á vettvangi EFTA að þegar svo bar undir, þó að þeir séu ekki inni í EES-samningnum þá eru þeir í ýmiss konar samstarfi, að þeir þvældu mál svo mörgum árum skipti ef þeir mátu það þannig að það væri þvert gegn hagsmunum þeirra og gerðu allt til að reyna að koma í veg fyrir að skaðinn yrði sem mestur. Það eru mörg dæmi um það að þjóðir innan Evrópusambandsins og utan gæta sinna hagsmuna og hafa sett fótinn niður. Við Íslendingar höfum ekki gert það. Við höfum tæki til þess og bara það að þingið segi: Hingað og ekki lengra, við ætlum ekki að samþykkja mál sem augljóslega ganga þvert gegn okkar hagsmunum. Reyndar er það þannig ef menn lesa fyrir hvað Evrópusambandið stendur geta menn ekki komist að þeirri niðurstöðu, hvort sem menn eru fylgjandi eða andvígir, að markmiðið sé það, a.m.k. ekki í orði kveðnu, að hækka vöruverð og minnka samkeppni innan Evrópusambandsríkjanna eða á þeim markaði sem Evrópusambandsríkin eru í þessu tilfelli Evrópska efnahagssvæðisins. Þetta er þvert á það sem í það minnsta er í orði kveðnu, þannig að ef við höfum einhvern tíma haft góðan málstað til að taka slaginn um þá er það þetta vonda mál sem á sér enga fylgismenn, enga.

Virðulegi forseti. Ég er búinn að vera á þingi ansi lengi en ég man aldrei eftir því að talsmaður, maður sem talaði fyrir málinu kæmi inn á það að það væri alveg kolómögulegt. Það má vel vera að það hafi gerst en alla jafna gengur þetta þannig að þeir sem tala fyrir málum fara yfir það hversu góð þau eru. Kjarni málsins er sá að þetta er eitt af þeim málum sem er fullt af tækniorðum, það eru hættulegustu málin, og svo ég fái að vitna í erlent tungumál og vona að ég lendi ekki í miklum vandræðum þó að ég hafi gert það stundum hér, þá segi ég á enskri tungu ,,The devil is in the details“. Þegar maður fær mál þar sem er mikið af tækniorðum á maður að setja allt af stað, þá eiga að blikka öll rauð ljós. Eins og sá sem hér talaði á undan, hann talaði um tæmingu, annars vegar alþjóðlega tæmingu og hins vegar svæðisbundna tæmingu. Hvað þýðir það? Svæðisbundin tæming er þrengra hugtak. Með öðrum orðum, það er verið að loka mörkuðum. Hverjir tapa á því? Almennt allir en þó sérstaklega pínulitlar þjóðir, fámennar þjóðir eins og Íslendingar sem telja bara 300 þúsund manns. Það er skárra fyrir stórþjóðir að hafa lokaðan markað vegna þess að þar búa miklu fleiri. Það er miklu meiri fjölbreytni. En við Íslendingar, alveg eins og sjálfstæðishetjan Jón Sigurðsson vísaði til fyrir löngu síðan, við þurfum á frjálsri verslun að halda. Þegar Danir voru hér með einokunarverslun var það almenningur í þessu landi sem tapaði mest. Reyndar er það þannig að fátækustu löndin tapa mest á haftaverslun.

Ef við lítum á heildarmyndina, sem ég held að sé mjög gott, er Evrópusambandið fylgjandi svæðisbundinni verslun. Hugmyndafræði þeirra hefur gengið út á það að vera með stóran innri markað sem er lokaður fyrir öðrum þjóðum, það er í grófum dráttum hugmyndafræðin. Hverjir tapa á því? Þeir sem tapa langmest á því eru fátækar þjóðir.

Hér kinkar hv. þm. Lilja Mósesdóttir hagfræðingur kolli vegna þess að hv. þingmaður þekkir þetta mjög vel. Þó að það hafi ekki verið mikið í umræðunni hér á Íslandi er tekist mjög á um þetta. Það er t.d. tekist á um þetta innan raða Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. GATT-samningarnir, sem voru undanfari þess hófust árið 1947, þá með nokkrum tugum þjóða, 23 ríkjum, held ég. Þá reyndu menn að búa til alþjóðaviðskiptastofnun, eitt alþjóðaviðskiptakerfi fyrir heiminn þar sem þjóðir gætu verslað sín á milli og þá voru menn sérstaklega að hugsa um að fátæku þjóðirnar gætu bjargað sér.

Við Íslendingar hefðum aldrei komist þangað sem við erum ef vörur okkar hefðu ekki komist á erlenda markaði, ef þær hefðu verið tollaðar upp úr öllu valdi. Við erum útflutningsþjóð og ef við hefðum ekki getað komið fiskinum okkar eða álinu okkar á markað værum við dæmd til fátæktar.

Evrópusambandið hefur aldrei haft forgöngu um fríverslunarsamningalotu hjá Alþjóðaviðskiptastofnun og GATT, aldrei. Evrópusambandið er ávallt sá stóri aðili sem hefur verið á bremsunni þegar menn hafa komið af stað nýrri samningalotu innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar og þar á undan GATT. Svo einfalt er það. Við skulum ekkert blekkja okkur, bak við þetta pínulitla mál sem á sér enga fylgismenn hér á landi, fyrir utan einhverja sem hafa mikilla hagsmuna að gæta, er gríðarlegur lobbíismi innan Evrópusambandsins hjá aðilum sem eiga þar hagsmuna að gæta. Og meiri hlutinn hér ætlar að ganga frá þessari kranalagasetningu. Já, þetta er rosalega vont mál, allir eru sammála um það, en við ætlum ekkert að gera í því nema bara að samþykkja það.

Þeir dómar sem fallið hafa í þessu máli heita ákveðnum nöfnum. Þeir heita Silhouette, sem eru sólgleraugu, Maglite, sem eru vasaljós. Miðað við þá eftirgrennslan sem ég hef farið í virðist þetta fyrst og fremst eiga við um dýrari vörur. Hvað eru dýrari vörur? Það eru m.a. lyf. Ég náði sem heilbrigðisráðherra sem betur fer miklum árangri í að lækka lyfjaverð, en ég þurfti að hafa mjög mikið fyrir því. Þegar ég fór í þá vegferð var mér sagt að það væri ekki hægt. Það er hægt en þar tekst maður á við alvöru öfl, virðulegi forseti.

Það er ekkert verra fyrir þessi öfl en opnir markaðir. Það er ekkert verra en að við Íslendingar getum verslað lyf hvar sem er. Fyrir þá aðila sem vilja halda uppi háu verði á því sviði er þetta mál gríðarlegt fagnaðarefni. Virðulegi forseti. Mér fannst gott að hv. þm. Magnús Orri Schram skyldi taka Evrópusamstarfið inn í umræðuna.

Mér finnst einhvern veginn að okkur ætti öllum að vera það ljóst eftir það efnahagshrun sem hér varð að við gerðum mörg mistök. Án nokkurs vafa átti andvaraleysi okkar þingmanna nú og fyrr gagnvart þessu ágæta Evrópusamstarfi, sem haft hefur mjög góð áhrif á mörgum sviðum, sinn þátt í því. Þeir aðilar sem hér voru hefðu betur skoðað nánar hvaða áhrif innstæðutryggingartilskipun gæti haft, ég var að vísu ekki hér þá. Ef menn hefðu komist að þeirri niðurstöðu að ekki væri nokkur einasta leið að berjast gegn þessu — ég er að vísu er alveg sannfærður um að ef menn hefðu áttað sig á þessu fyrr og unnið í málinu hefði verið hægt að gera ráðstafanir af augljósum ástæðum og augljósum réttlætisrökum. Málstaður okkar væri miklu sterkari ef við hefðum hreyft mótmælum og reynt að vinna í því máli.

Núna erum við með innstæðutryggingarmál. Ekki hefur verið skoðað hvað er hér í gangi. Ekkert hefur verið gert, t.d. hefur ekki verið sagt við almættið í Brussel: Það er engin sanngirni í þessu. Þetta er þvert á það sem þið segið að Evrópusambandið standi fyrir. Þetta er gegn því sem lagt var upp með með EES-samningnum, því að við ætluðum aldrei í tollabandalag. Við ætluðum að vera aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu.

Svo ég vísi aftur í það verkefni þegar komið var á frjálsri verslun, það var m.a. gert hjá Alþjóðaviðskiptastofnuninni, fóru fyrstu áratugirnir í það að lækka og afnema tolla. Því er lokið að mjög stórum hluta. Núna eru það tæknilegar viðskiptahindranir og ýmsar aðrar leiðir sem menn nota til að koma í veg fyrir samkeppni og ekkert slíkt gerist af sjálfu sér. Það er alla jafna vegna þess sem þeir sem hafa hagsmuna að gæta „lobbíera“ til þess að svo megi verða. Hér erum við einmitt að koma á tæknilegum viðskiptahindrunum og það var aldrei lagt upp með það með Evrópska efnahagssvæðinu, aldrei.

Virðulegi forseti. Það væri gott ef stjórnarþingmenn kæmu hér, þó að það væri ekki til annars en að fá það í þingskjölin, og útskýrðu fyrir okkur, fyrir þjóðinni af hverju menn ættu að leggjast flatir án nokkurrar baráttu og samþykkja mál sem allir, m.a. framsögumenn, eru sammála um að er gegn hagsmunum þjóðarinnar, án þess að hafa einu sinni reynt að finna góða lausn. Það er ekki búið að hringja eitt símtal til þess. Af hverju ætla menn með opin augun og glaðir í bragði að samþykkja að minnka samkeppni og hækka vöruverð hér? Menn hafa ekki hugmynd um hvaða vörur það verða, ekki hugmynd. Menn hafa ekkert skoðað hvaða afleiðingar það mundi hafa í för með sér.

Það sem við vitum er að það er slagur á milli viðskiptastórveldanna og við vitum að það er öllum brögðum beitt til þess að koma á hinum ýmsu viðskiptamúrum. Þó svo að það sé vont fyrir okkur Íslendinga, er það því miður enn þá verra fyrir hinar fátæku þjóðir, fyrir þróunarlöndin. Þau benda réttilega á að þau eiga mjög erfitt með að vinna sig út úr fátæktinni meðan þau fá ekki að koma vörum inn á markað, en mönnum hefur því miður tekist að koma á alls kyns hindrunum og hömlum.

Það að koma á slíkum hindrunum, slíkum hömlum, er ekki eins og með veðrið. Við getum ekki nálgast málið eins og um vont veður sé að ræða og ekkert við því að gera, að við búum nú einu sinni á Íslandi. Þetta eru mannanna verk. Það er ekkert sem kallar á að menn hlaupi hér til og klári þetta mál í einhverri nauðhyggju, eins og einn ágætur hv. þingmaður segir. Og svo ég leiki mér aðeins með hugtök sem mér er ekki tamt að nota en geri það af því að það er svo mikið af stjórnarliðum hér inni, sem mér finnst gott, held ég að það sé engin ástæða til þess að þjónka auðvaldinu, virðulegi forseti. (Gripið fram í.)

Það kemur kannski í ljós núna hverjir það eru sem berjast fyrir því þegar það kemur að umræðu og atkvæðagreiðslu í raun. (Gripið fram í.) Virðulegi forseti, ég kann nefnilega þessi hugtök. Guð er húmoristi og ég veit ekki hvort það er honum að kenna eða af hverju það var sem ég fór í stjórnmálafræði. Ég þurfti að lesa ýmislegt þar og alveg ótrúlega mikið af Karl Marx og Engels. Engels var auðjöfur sem glósaði fyrir Karl Marx og það er ein mesta vitleysa sem ég hef nokkurn tíma lesið, ég þurfti að lesa mjög mikið af henni. En það var mjög mikið af skemmtilegum hugtökum sem getur verið gaman að nota og sum þeirra eru alveg ágæt. „Firring“ var eitt þeirra. Í þessu tilfelli er ekki um neina firringu að ræða, allir þingmenn sem að þessu máli hafa komið og allir umsagnaraðilar eru með opin augun. (Gripið fram í.) Þeir eru sammála um að hér sé slæmt mál á ferðinni, mjög slæmt, þvert gegn hagsmunum Íslands. Hér sé verið að gæta hagsmuna mjög fárra og það gengur gegn hagsmunum almennings í þessu landi. Menn eru líka sammála um að það var ekki lagt upp með þetta þegar við gengum í Evrópska efnahagssvæðið. Við ætluðum aldrei í tollabandalag.

Við heyrum það hér að sumir þingmenn geta ekki beðið að komast til fyrirheitna landsins og sumir þingmenn eru allt annarrar skoðunar, eins og við fengum að heyra í skemmtilegum orðaskiptum rétt áðan.

Það er alveg sjálfsagt, bæði málefnalegt og eðlilegt að fara yfir það hvernig hagsmunum Íslands sé almennt best borgið og það er eitthvað sem við höfum misjafnar skoðanir á. En við erum öll sammála um að þetta mál er vont. Við erum öll sammála um að það er vont fyrir Ísland og það er vont fyrir Íslendinga.

Nú eru menn búnir að ræða mjög mikið um önnur mál. Þótt tiltaka megi mjög margt sem menn hafa verið andvaralausir gagnvart þegar kemur að Evrópusamstarfinu, tilskipunum þess og innleiðingu þeirra, er versta einstaka málið án nokkurs vafa þessi innstæðutryggingartilskipun. Ég veit ekki til þess að neinn aðili hafi þá sagt: Ef við samþykkjum þetta mun það geta leitt af sér stórkostleg vandræði fyrir þjóðina þegar bankar fara í útrás. Ég veit ekki til þess að neinn hafi vitað það eða áttað sig á því. Hér hins vegar veit meiri hlutinn það alveg að þetta er mjög vont mál, hann er algjörlega meðvitaður um það.

Ég skrifaði nefndarálit minni hlutans, það var ótrúlega auðvelt, virðulegi forseti. Ég tók bara röksemdirnar úr athugasemdunum með frumvarpinu. Þetta er ein léttasta vinna sem ég hef innt af hendi. Hún var, svo ég sletti nú aðeins, svona „kópí-peist“. Það er hvergi neitt sem mælir með þessu máli, það hefur enginn fundið neitt slíkt. Og það eru engin rök að segja: Æ, þetta er eitthvað sem við þurfum að gera en þegar við förum í Evrópusambandið verður það alveg frábært. Eiríkur Bergmann er bara búinn að skrifa það. Það eru rök sem halda bara ekki. (SII: Jú, jú.) [Hlátur í þingsal.]

Það er oft mjög erfitt að „diskútera“ við sértrúarsöfnuði. Við heyrðum í einum meðlimi, hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, rétt áðan með ágætisframmíkall. Ég ætla ekki að reyna að sannfæra hv. þingmenn Samfylkingarinnar um Evrópusambandið í þessu máli. Það sem ég fer hins vegar fram á, vegna þess að það kallar ekkert á að við ljúkum þessu máli núna, er að menn dragi nú aðeins andann, skelli þessu máli einhvers staðar aftast, fari aðeins betur í hvað við getum gert í þessari stöðu.

Ég held að eftir allt það sem á undan er gengið sé ekki gott að vera hér með kranalagasetningu í máli eins og þessu. (Gripið fram í.) Hv. þingmaður spyr hvað kranalagasetning þýði. Ég vitnaði í að einn ágætisfjölmiðlamaður talaði um kranablaðamennsku og vísaði til þess að þar tækju menn öllu sem gefnu og, svo ég noti aftur aðra tungu en okkar, „kópí-peisti“ alla hluti, það er nákvæmlega það sem verið er að gera hér. Við reynum ekki að beita þeim tækjum sem við höfum til þess að koma í veg fyrir að við þurfum að undirgangast þetta mál sem við erum öll sammála um að er vont. Ég geri ráð fyrir því að hér sé enginn sem hefur beinna persónulegra hagsmuna að gæta, sem heldur hér vöruverði háu og samkeppni í lágmarki, en þeir aðilar eru auðvitað til. Ég ætla ekki þeim þingmönnum sem mæla fyrir þessu máli og ætla að greiða atkvæði með því, að þeir geri það.

Mér fannst mjög góð ræðan hjá hv. þm. Magnúsi Orra Schram, sem fór heiðarlega yfir þetta mál eins og hans var von og vísa. Ég er ekki búinn að finna neinn sem er fylgjandi þessu máli, þeir eru í felum. Ég er heldur ekki búinn að finna neinn rökstuðning fyrir málinu nema að það féll dómur og þá verðum við bara að undirgangast þessar skuldbindingar eins og bara ekkert sé.

Virðulegi forseti. Lærum af mistökunum. Við vitum ekki nákvæmlega hvað þetta hefur í för með sér en við vitum það öll að þetta er mjög slæmt mál. Nú skulum við aðeins hinkra og standa í fæturna.