138. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2009.

hlutafélög og einkahlutafélög.

70. mál
[17:31]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög er snúa að réttindum hluthafa. Vil ég nú lýsa nánar efni frumvarpsins:

Frumvarpið felur í sér innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2007/36/EB og snertir nýtingu tiltekinna réttinda hluthafa í hlutafélögum sem hafa fjármálagerninga sína tekna til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði. Þessi félög, sem hafa verið nefnd skráð félög, eru fá hér á landi nú eða um 15 þótt þau hafi verið mun fleiri áður og verði vonandi aftur. Hlutafélög sem skráð eru í hlutafélagaskrá eru hins vegar um 800 talsins og einkahlutafélög sem þar eru skráð um 30.000 talsins. Frumvarpið mun því einungis ná til mjög fárra en þó mikilvægra félaga hér á landi.

Markmiðið með EES-reglunum er að auka réttindi og áhrif hluthafa í áðurnefndum félögum og skapa jafnræði með þeim, innlendum og erlendum, varðandi þátttöku í hluthafafundum og atkvæðagreiðslu þar. Meginbreytingin er sú að frestur til að boða til hluthafafunda er lengdur úr að lágmarki einni viku í að lágmarki þrjár vikur að aðalreglu til. Undantekningar frá aðalreglunni kveða á um styttri frest en þrjár vikur, þ.e. tvær vikur ef unnt er að boða til hluthafafunda rafrænt og tíu daga frest við boðun framhaldsaðalfunda í viðkomandi félögum.

Auk ákvæðanna um lágmarksfrest til að boða hluthafafundi er í nýju reglunum gert ráð fyrir ákvæðum um það hvað skuli greina í fundarboði um málsmeðferð o.fl., rétt til að koma með tillögur um dagskrármál og ályktunartillögur, skilyrði fyrir þátttöku í hluthafafundi og atkvæðagreiðslu þar, þátttöku í hluthafafundi með rafrænum hætti, rétt til að leggja fram fyrirspurnir á hluthafafundi, atkvæðagreiðslu fyrir milligöngu umboðsaðila, skipun umboðsaðila og tilkynning á honum til félagsins, bréflega atkvæðagreiðslu, afnám hindrana í vegi skilvirks atkvæðisréttar og kynningu á vef félagsins fyrir og eftir hluthafafund, m.a. um skjöl og tillögur fyrir fundinn og úrslit atkvæðagreiðslu eftir fundinn. Þess má geta að viss ákvæði sem eru í gerðinni hafa þegar verið tekin upp í lög um hlutafélög og lög um einkahlutafélög, þ.e. ákvæði um rafræna hluthafafundi með lögum á árinu 2006. Aðeins er gert ráð fyrir lítils háttar breytingum á lögunum um einkahlutafélög nú.

Í athugasemdum við frumvarpið er gerð nánari grein fyrir fyrirhuguðum breytingum á löggjöf. Nefna má að í fyrirhugaðri 88. gr. d er kveðið á um að birta skuli úrslit kosninga á hluthafafundi á vef félags innan fimmtán daga eftir fundinn nema ákveðið sé af hálfu félagsins að veita ítarlegri upplýsingar um atkvæðagreiðslur. Eigi er skylt að upplýsa hvernig tilteknir hluthafar greiddu atkvæði.

Að mati fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins verður ekki séð að frumvarpið muni hafa í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð verði það óbreytt að lögum.

Virðulegi forseti. Ég vænti þess að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til viðskiptanefndar.