138. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2009.

hlutafélög og einkahlutafélög.

70. mál
[17:35]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg):

Frú forseti. Jafnvel þótt frumvarpið sem hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra hefur nýlokið við að mæla fyrir sé í raun innleiðing á EES-reglu þá kemur það til móts við kröfu margra um gegnsæ og lýðræðisleg vinnubrögð í kjölfar bankahrunsins. Hluthafar í skráðum fyrirtækjum eiga nú að fá boð um hluthafafund þremur vikum fyrir fundinn og jafnframt að fá upplýsingar um þátttöku og atkvæðagreiðslu á hluthafafundinum. Þessar upplýsingar á líka að vera hægt að nálgast á ákveðnu vefsvæði þannig að það má segja að frumvarpið sé svona að færa lögin nær raunveruleikanum. Einn helsti ávinningur frumvarpsins er að nú eru minni líkur á því að meirihlutahluthafar geti stjórnað hluthafafundum í krafti þess að hafa ekki veitt minnihlutahópi hluthafa nægilega góðar upplýsingar um það sem á að taka fyrir á hluthafafundi. En skortur á upplýsingum er einmitt orðalag sem oft notað af þeim sem vilja vera ráðandi, ekki bara á markaði heldur inni í fyrirtækjunum.

Þetta frumvarp er því mikilvæg réttarbót þótt það nái ekki til mjög margra fyrirtækja. Það einskorðast við fyrirtæki sem eru skráð fyrirtæki í Kauphöllinni en ég mun sem formaður viðskiptanefndar leitast við að tryggja að frumvarpið fái sem vandaðasta umfjöllun í nefndinni.