138. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2009.

vextir og verðtrygging.

12. mál
[18:43]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Það mál sem hér er til umræðu er áhugavert fyrir margra hluta sakir og ég vil bætast í hóp þeirra þingmanna sem þegar hafa fært fram þakkir til þingflokks framsóknarmanna fyrir það frumvarp sem hér liggur fyrir. Þetta er mál sem við höfum rætt heilmikið, bæði hér í þingsölum og í samfélaginu öllu og auðvitað sýnist sitt hverjum um verðtrygginguna.

Hvað varðar efni frumvarpsins ætla ég fyrst að segja að mér finnst 1. gr., sem lýtur að því að hámarkshækkun sé á verðtryggingu, 4% á ári, vera um margt áhugaverð hugmynd, þ.e. að verðtrygging sé hvorki afnumin né bönnuð en henni sett ákveðin takmörk. Ég held að það sé ákveðin leið í þessu máli sem er vert að skoða og velta fyrir sér. Vandinn við verðtrygginguna er nefnilega sá að ef við ætlum að búa áfram við íslenska krónu, ef við ætlum að hafa íslenska mynt áfram sem gjaldmiðil okkar, þá verðum við að leysa þetta verðtryggingarmál. Það er ekki hægt að ætla sér að reyna að stýra peningamálum á Íslandi með vaxtaákvörðunum Seðlabanka og búa við jafnalmenna verðtryggingu og raun ber vitni, vegna þess að ef við erum áfram með jafnumfangsmikla verðtryggingu og raun ber vitni, þýðir það einfaldlega að vaxtastýritæki Seðlabankans virkar ekki sem skildi, menn spóla bara áfram með vextina og það slær t.d. ekki á neyslu, á þenslu eins og til er ætlast. Þetta sáum við hér á síðustu árum, við horfðum á vextina rjúka upp í hæstu hæðir, án þess að það hefði þau áhrif á neyslu almennings að menn drægju saman seglin. Það sem verst var hjá okkur var auðvitað það að vegna aðgengis að erlendu lánsfé fóru menn bara fram hjá þessum stýrivöxtum og við þekkjum auðvitað söguna um jöklabréfavandann og þá niðurstöðu sem því miður var óumflýjanleg vegna þeirrar vegferðar sem Seðlabankinn var kominn í.

Þannig að stór og mikil efnahagsleg rök eru fyrir því að finna lausn á þessu, þ.e. ef við ætlum að vera áfram með íslenska krónu. Þess vegna fagna ég þessu framlagi Framsóknarflokksins. Þetta er tilraun til þess að kynna lausn á því vandamáli sem hér um ræðir.

Ég er þeirrar skoðunar að í kjölfar þjóðarsáttarsamninganna á sínum tíma höfum við Íslendingar haft sögulegt tækifæri til þess að fara út úr verðbólgunni. Þegar okkur tókst með samningum aðila á vinnumarkaði að ná verðbólgunni niður og skapa stöðugleika í íslensku efnahagslífi, þá var tækifæri til að gera þetta. Þá var tækifæri til þess að fara úr verðtryggingunni eða í það minnsta að draga mjög úr henni. Ef það hefði verið gert þá, þá hefði einmitt það gerst sem hér hefur verið lýst úr þessum ræðustól, m.a. af flutningsmanni frumvarpsins, að þar með hefði áhættan af lánveitingunum deilst jafnt á milli lánveitanda og lántakanda. Nú er hún öll á lántakanda og í raun og veru engin á lánveitandanum. Það er hættulegt fyrir efnahagslífið að þetta sé svona, það er hættulegt að þeir sem lána peninga þurfi ekki að hafa áhyggjur af verðbólgunni. Það segir sig bara sjálft, vegna þess að það er útlánahvetjandi og hættan í hagkerfi hvers lands er sú að útlánin vaxi langt umfram þá verðmætasköpun sem í raun og sann á sér stað í samfélaginu. Þetta þekkjum við þar sem eignabólur verða, eins og varð t.d. hér, þar sem húsnæðisverð hækkar mjög hratt og það húsnæðisverð er síðan grundvöllur og andlag aukinna veða, sem aftur þá leggja grunn að aukinni útlánastarfsemi bankanna, sem aftur knýr áfram húsnæðisverð, sem aftur kallar á meiri útlán og svona gengur það koll af kolli, þar til að niðurstaðan verður sú að óstöðugleiki fjármálakerfisins verður meiri og meiri. Þetta er sérstaklega hættulegt þar sem menn telja sig algerlega varða fyrir verðbólgunni.

Það er rétt sem vitnað er til hér í greinargerð með frumvarpinu, þar sem haft er eftir hagfræðingnum Michael Hudson, að það sem gerist almennt ef hrun verður og hlutabréfaeign manna þurrkast út er að þá kemur verðbólga í kjölfar hrunsins og skuldin þurrkast út. Þetta vita þeir sem veita lán í löndum þar sem ekki er jafnútbreidd verðtrygging, þess vegna halda menn frekar að sér höndum og fara með meiri gát í útlánastarfsemi. Við erum með kerfi sem er þannig að meira að segja eftir svona hrun þar sem rentuberandi eignir ættu að öllu jöfnu að vera að hverfa, þá halda rentuberandi eignir, þ.e. þau lán sem eru verðtryggð, verðgildi sínu. Það segir sig auðvitað sjálft að eitthvað óeðlilegt er þar á ferðinni, þ.e. áhættan var öll sett á lántakann en engin á lánveitandann. Þetta er atriði sem við verðum að taka á.

Þess vegna finnst mér enn og aftur áhugaverð hugmynd að setja ákveðið þak á verðtrygginguna. Ég verð að játa að ég er að sjá þessa hugmynd fyrst núna og ég held að það sé vel þess virði að skoða hana og velta fyrir sér og sjá mögulegar afleiðingar.

Ég held að við Íslendingar höfum í sjálfu sér haft ástæðu til að fara í einhverja svona verðtryggingu á sínum tíma þegar Ólafslögin voru sett, m.a. í kjölfar þess sem gerðist í Bandaríkjunum þegar Bandaríkjamenn þurftu að vinna sig út úr stríðsskuldum sínum m.a. vegna Víetnamstríðsins. Bandaríkin fóru úr Bretton Woods kerfinu og fóru af gullfæti, prentuðu dollara sem er alheimsmynt og fluttu þar með raunverulega verðbólgu til annarra landa og borguðu niður eigin skuldir sínar með þeim hætti. Þetta gátu Bandaríkjamenn gert af því þeir voru með mynt sem er alheimsmynt ef svo má segja. Þetta geta Íslendingar auðvitað ekki gert og við verðum þá að fá okkar verðbólgu sjálf bara beint í hausinn.

En til þess að leysa þetta fórum við Íslendingar þessa leið og af því að menn áttuðu sig auðvitað á því að þetta var mjög hættulegt og myndaði mikið óréttlæti, þá fórum við um leið í það að verðtryggja laun og vísitölubundum launin. Þannig að þegar vísitalan og verðbólgan hækkuðu þá hækkuðu bara launin og lánin og svona gekk þetta fyrir sig og við vorum einhvern veginn, eins og hér hefur verið lýst, búin að finna leið til að lifa með verðbólgunni, til að þurfa ekki að leysa hana heldur lifa með henni. En auðvitað kallar það á gríðarlega sóun í samfélaginu þegar verðbólgan er svona há, það býr til alveg gríðarlegan óstöðugleika, gengisóstöðugleika, vegna þess að verð á t.d. fiskútflutningi okkar hækkaði ekki erlendis þótt verðbólga og laun keyrðust hér upp, sem aftur kallaði á gengisfellingar, sem aftur kallaði fram verðbólgu og svo koll af kolli, fram að þjóðarsáttarsamningaferlinu, þar sem við unnum okkur út úr þessum vítahring. Enn og aftur var það ógæfa að okkur tókst ekki að nota það tækifæri til að fara út úr verðtryggingunni eða í það minnsta draga úr henni.

Ég þarf vart að rifja það upp hér hversu sársaukafullt það var fyrir marga þegar launavísitölunni var kippt úr sambandi og hætt var að verðtryggja laun en lánin ein látin standa eftir. Það var auðvitað gríðarlegt högg fyrir þúsundir íslenskra fjölskyldna og mikil eignaupptaka sem fólst í þeirri aðgerð. Það má vera að hún hafi verið nauðsynleg, kannski skiljanleg tilraun til þess að reyna að stöðva verðbólguna, en hún var mjög þungbær. Hún var mjög þungbær.

Að lokum vil ég bara segja þetta varðandi þetta frumvarp, frú forseti, að ég vona að það fái góða og ítarlega umfjöllun í nefnd og að öll þau sjónarmið sem skipta máli komi fram. M.a. sjónarmið lífeyrissjóða og þeirra sem lána peninga sem geta haft áhyggjur af þessu og það er sjálfsagt að hlusta á þau. En enn og aftur þá er auðvitað eitthvað að þegar öll áhættan liggur öðrum megin. Það er ekki skynsamlegt að búa til kerfi í kringum lánakerfi okkar þannig að verðbólguáhættan liggi öll öðrum megin. Auðvitað fylgir því alltaf áhætta að lána peninga af því að sá sem tekur lánið getur orðið gjaldþrota. Verðtryggð lán eru ekkert áhættulaus. Það er sú áhætta að höfuðstóllinn fáist ekki greiddur til baka vegna gjaldþrots. Það er áhætta sem menn verða að búa við, en hinni áhættunni verða menn auðvitað að deila með einhverjum hætti og reyndar hvað varðar þá áhættu sem snýr að gjaldþroti, þá taka menn einmitt vexti vegna hennar og eftir því sem meiri áhætta er á gjaldþroti því hærri vexti innheimta menn af lántakandanum til þess að vernda sig og bæta sér þá áhættu sem fylgir gjaldþrotaáhættunni. Þannig að lánveitandinn hefur alla möguleika til þess að verja sig fyrir slíkri áhættu.

Þess vegna er enn og aftur nauðsynlegt að við skoðum hugmyndir m.a. eins og þessa, til að sjá hvort við getum ekki unnið okkur einhvern veginn jafnt og þétt út úr þessu kerfi.

Og eitt að lokum. Núna er ákveðið tækifæri vegna þess að allt bendir til þess að við eigum að ná verðbólgunni niður og það er ekki þetta mikla aðgengi að erlendu lánsfé sem var hér á síðustu árum, með öðrum orðum við munum búa við það vaxtastig og það fjármagn sem er í boði hér á Íslandi. Menn fara sem sagt ekki fram hjá systeminu. Þess vegna eigum við þá núna að reyna að nota þetta tækifæri sem er að gefast til þess að koma upp nýju kerfi þannig að hagsmunir allra séu sem best tryggðir en öll áhættan sé ekki hjá lántakandanum.