138. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2009.

vextir og verðtrygging.

12. mál
[19:00]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi máls míns fagna því að við skulum vera að ræða þetta frumvarp í dag og ég hefði talið mun skynsamlegra að við hefðum rætt það miklu, miklu fyrr og notað tímann betur. Ég stóð reyndar alltaf í þeirri trú sjálfur þegar ég settist á Alþingi í vor að við mundum einmitt snúa okkur að því að ræða sams konar mál eða svipuð og þessi, þ.e. það sem sneri að vandamálum heimilanna og fyrirtækjanna til að koma efnahagslífinu á lappirnar aftur. Því miður hefur það ekki verið gert, við höfum eytt hér óþarfa tíma í alls konar mál sem skipta ekki nokkru einasta máli.

Ég vil líka segja að ég fagna því hvernig hv. þm. Lilja Mósesdóttir, formaður viðskiptanefndar, tók í þetta mál í ræðu sinni áðan og vek athygli á því að hún er eini stjórnarþingmaðurinn sem sér sér fært að taka þátt í þessari mikilvægu umræðu.

Mig langar að að fara aðeins yfir frumvarpið efnislega. Ég fagna því að í 1. gr. er lagt til að þetta séu ákveðin þrep, menn byrja á því að fara með verðtrygginguna niður í 4%, þ.e. ekki er verið að afnema hana alveg heldur er vísað til þess í 3. gr. frumvarpsins að skipi Alþingi þá aðila sem hér eru taldir upp, þ.e. helstu hagsmunaaðilana, bæði fjármagnseigendur og lántakendur, fyrir þá málsmeðferð þannig að þá fari menn í efnislega umræðu þar um það hvort ekki sé hægt að vinna sig út úr þessu til enda. Ég tel þetta mjög skynsamlegt. Hvort prósentan á að vera 3 eða 4 eða 5 skiptir ekki öllu máli en þetta er ákveðið innlegg inn í umræðuna og ég held að þetta sé mjög skynsamlegur grunnur til að byrja á til að feta sig eftir.

Það sem þessi verðtrygging hefur orsakað og allir vita hér inni er að þetta er eingöngu áhætta lántakanda en ekki lánveitandans. Það magnar það í raun og veru oft upp að menn hafa ekki sýnt aðhald í því að lána þá peninga sem menn eru með heldur hugsa einungis um að þeir fái þá alltaf til baka. Það er náttúrlega það sem þetta byggir á og ekki eingöngu það heldur er það líka bara mjög óréttlátt við þær aðstæður sem núna eru að þetta skuli vera með þessum hætti. Og bara til að rifja það hér upp þá gerðist það við hrun bankanna í haust að höfuðstóll verðtryggðu lánanna hækkaði um 20–25% á einni nóttu og það sem gerist náttúrlega við það er að öllum stoðum er kippt undan fjölskyldum landsins og það hefur mjög alvarlegar afleiðingar fyrir þær, frú forseti.

Við hvaða aðstæður er þetta að gerast? Þetta gerist við þær aðstæður að við búum við mikið atvinnuleysi, það verður 15% rýrnun á kaupmætti á næsta ári plús lækkandi laun, þannig að fjölskylda sem taldi sig vera í öruggu skjóli og ekki með neitt bruðl eða annað, fótunum var hreinlega kippt undan henni. Þess vegna er mjög mikilvægt að menn skoði þetta raunhæft og með skynsömum hætti.

Síðan langar mig líka að koma aðeins inn á annað, það kemur reyndar fram að lífeyrissjóðirnir sem eru náttúrlega fjármagnseigendur voru kannski sem eðlilegt er ekkert rosalega hrifnir af þessari hugmynd í upphafi, en mig langar að velta því einmitt upp, frú forseti: Hverjir eiga lífeyrissjóðina? Eru það ekki íbúar landsins sem eiga lífeyrissjóðina og eru þá oft lántakendur hjá lífeyrissjóðunum? Maður skilur þetta ekki, manni finnst svona að þetta séu sömu aðilarnir sem standa þarna að verki.

Svo vil ég líka minna á að lífeyrissjóðirnir hafa ekki alltaf farið mjög varlega og ef þeir hafa ekki tapað svo miklu eins og í óvarlegum fjárfestingum og öðru — þeir hafa nú oft verið þar á mjög gráu svæði eins og fréttir undanfarinna mánaða og vikna hafa sýnt okkur — þá held ég ef niðurstaðan yrði sú að þá væru þeir alveg til þess bærir að taka einhverja áhættu af verðtryggingunni með lántakandanum.

Svo ég haldi áfram með það sem hefur í raun og veru gerst síðan hrunið varð og hvað gerðist í kjölfar hrunsins. Það sem gerðist var að fjármagnseigendum voru tryggðar innstæður umfram það sem íslenska ríkinu bar að gera. Það var gert með þeim hætti að tugir milljarða voru settir inn í peningamarkaðssjóðina til að rétta þá af. Þessar aðgerðir stjórnvalda hafa eingöngu verið til fjármagnseigenda. Síðan þegar kemur að því að ræða það að rétta þurfi af heimilin og gefa fjölskyldunum von þá er rosalega fátt um svör, þá er allt stíflað í kerfinu, það er alveg óvinnandi vegur að gera það með einhverjum hætti. Maður upplifir það svoleiðis.

Í framhaldi af þessu langar mig að velta því upp hér, ég er reyndar búinn að senda skriflega fyrirspurn um það, á hvað seldu bankarnir húsnæðislánastabbann á milli sín, þ.e. hver voru afföllin á húsnæðislánunum sem voru færð á milli bankanna? Mikil afföll eiga sér stað þar en þau mega engan veginn ganga til íbúðareigendanna eða skuldaranna. Manni finnst það oft á tíðum ekki sanngjarnt hvernig þetta er gert.

Síðan langar mig rétt í lokin að koma inn á þann vítahring sem þessi verðtrygging er að við upplifðum það á sumarþinginu þar sem fyrsta verk ríkisstjórnarinnar til að koma til móts við heimilin í landinu var að fara í stórkostlegar skattahækkanir og svokallaðan bandorm og við munum alveg eftir umræðunni í kringum það. Við það að hækka óbeinu skattana var ríkisstjórnin í raun og veru að hækka höfuðstól lánanna hjá fólkinu með þeim aðgerðum. Þó svo að það færi út í neysluna þá hækkaði þetta sjálfkrafa höfuðstól lánanna. Þetta er bara einhver vítahringur sem við verðum að komast út úr, það er algjörlega ótækt að hafa þetta svona.

Ég vil líka koma aðeins inn á það sem er í farvatninu. Hvað er í farvatninu hjá okkur núna, hvað stendur í fjárlagafrumvarpinu? Það standa til gríðarlegar skattahækkanir á einstaklinga. Ég velti því fyrir mér, ég hef reyndar sagt það úr þessum ræðustól að ég tel þessa leið ekki færa, því miður, því að það sem mun gerast við þetta ofan á allt sem búið er að gerast er að við bara nánast göngum algjörlega frá fjölskyldunum í landinu, mörgum hverjum, reyndar ekki öllum en allt of mörgum, vegna þess að þær standa ekki undir þessu við þessi skilyrði, við minnkandi kaupmátt, við aukið atvinnuleysi og síðan hækkun á þessu öllu saman. Það er algjörlega bráðnauðsynlegt að menn fari að vinna sig út úr þessari vitleysu.

Það líka þannig þegar menn eru með verðtryggingu og þegar þetta fer niður og hjaðnar eitthvað þá kemur alltaf hin ástæðan, að það sé ekki hægt að taka hana úr sambandi eða þurfi ekki að taka hana úr sambandi eða gera neitt í því vegna þess að þetta sé allt svo lágt. Þegar tækifæri hafa komið eins og hv. þm. Illugi Gunnarsson benti hér á, þegar menn gerðu svokallaða þjóðarsátt þá var tækifæri sem við áttum að nýta. En það þýðir svo sem ekkert að vera að velta sér upp úr mistökum, við þurfum að læra af þeim og það er ákveðið tækifæri, eins og hann benti á í sinni ræðu, til að gera þetta einmitt núna og það er ekki bara tækifæri, það er líka lífsnauðsynlegt að gera það við þessar aðstæður, algjörlega lífsnauðsynlegt.

Hins vegar verðum við líka að passa okkur á því eins og við munum að áður en verðtryggingin var tekin upp, hún var ekki bara hugsuð til að vera til vandræða, þá var þetta búið að ganga þannig fyrir sig að fjármagnseigendur höfðu tapað öllu í hárri verðbólgu, þannig að auðvitað verðum við að gæta að okkur líka þar. Ég tel að með þessu frumvarpi geri menn sér fulla grein fyrir því og þess vegna vilja menn fara þetta fyrsta skref með því að setja hámark á hana og vísa því síðan til þeirrar nefndar sem Alþingi skipar og fá um það umsögn þar og eins hjá náttúrlega hv. viðskiptanefnd. Ég held að það ætti að vera sameiginlegt markmið bæði hjá lántakendum og lánveitendum að vinna sig út úr þessu og það setur líka, eins og hefur komið hér fram, ákveðinn varnagla á útlánastarfsemi og menn fara að gæta að sér að lána ekki bara algjörlega blint vegna þess að þeir fái allt til baka, þannig að þetta hlýtur að vera sameiginlegt markmið bæði fyrir lántakendur og lánveitendur. Ég treysti því, og sérstaklega eftir orð hv. þm. Lilju Mósesdóttur áðan, að málið fái góða og efnislega umræðu í viðskiptanefnd og góðan endi í þinginu.

Að lokum þakka ég flutningsmönnum frumvarpsins fyrir að bera það fram.