138. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2009.

vextir og verðtrygging.

12. mál
[19:15]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Frú forseti. Ég vil leyfa mér að fagna því frumvarpi sem hv. þingmenn Framsóknarflokksins hafa lagt hér fram og mæla fyrir í kvöld. Verðtryggingin og háir vextir eru að sliga bæði heimilin og fyrirtækin í landinu og með þessu frumvarpi er stigið skref í rétta átt, með því að setja þak á verðtrygginguna. Helst vildi ég sjá hana afnumda alveg en kannski er rétt að stíga varlega til jarðar og taka eitt skref í einu.

Einn stærsti vandi íslensks samfélags er gríðarleg skuldsetning í erlendri mynt en hún er einmitt að miklu leyti til komin vegna hárra vaxta á íslenskum lánum og hinnar alræmdu verðtryggingar. Þegar spilin voru lögð á borðið fyrir hrun var ekki nokkra glóru að sjá í því að taka lán í íslenskum krónum. Þótt ljóst væri að erlendum lánum fylgdi viss gengisóvissa vó vissan um hina skelfilegu verðtryggingu mun hærra. Íslenskir lántakendur hafa nefnilega ekki þurft að velkjast í vafa um að hverja krónu skuli borga margfalt til baka, það hefur legið fyrir um langt skeið. Því fagna ég tilkomu þessa frumvarps og óska flutningsmönnum þess alls hins besta og hlakka til að fjalla um málið í viðskiptanefnd.