138. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2009.

störf þingsins.

[10:34]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Það er rétt, menn eiga að gæta orða sinna og það er erfitt að vera borinn þeim sökum að hafa beinlínis logið í ræðustól Alþingis. Þetta er umræða sem átti sér stað fyrir tæpu ári síðan. Ég stend við orð mín og allt sem ég hef sagt í því máli, bæði þá og nú. Ég vil benda á að þessi skilningur er ekki bara minn heldur líka þeirra sveitarstjórnarmanna og annarra aðila sem að starfinu standa. Það hefur komið fram í kynningarefni að þeir vísa einmitt til þessa álits umboðsmanns Alþingis.

Ég skal gera eitt, ég skal birta álitið á heimasíðu minni seinna í dag, eins og ég túlka það. Þetta er alveg skýrt frá mínum bæjardyrum séð. Ef umhverfisráðherra hefði verið ósátt við þetta álit á sínum tíma hefði hún í sjálfu sér getað kært það til dómstóla til að fá því hnekkt. Sveitarfélögin ákváðu hins vegar að fara ekki með málið fyrir dómstóla vegna þess að þau vildu ekki koma málinu í meira uppnám því að þau hafa lagt sig fram um að vinna heiðarlega og skynsamlega með ráðherrum og forðast allan ágreining í lengstu lög.