138. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2009.

störf þingsins.

[10:37]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Frú forseti. Ég ætla ekki að blanda mér í þá umræðu sem er nýbúin að vera hér en held þó að allir ættu að gæta þess að tala ekki með yfirlæti til annarra þingmanna úr þessum ræðustól. Hins vegar vil ég benda á eitt sérkennilegt mál er varðar loftslagsráðstefnuna í Kaupmannahöfn sem nú stendur fyrir dyrum.

Nú er búið að upplýsa okkur um að af 12 manna sendinefnd, ef ég skil málið rétt, fari einungis tveir þingmenn. Það munu fara fimm aðilar frá framkvæmdarvaldinu, embættismannakerfinu, og svo einhverjir fjórir aðilar, ég vil segja utan úr bæ, sem eru þá meintir hagsmunaaðilar eða frá Samtökum atvinnulífsins, náttúruverndarsamtökum eða einhverju slíku. Ef það er eingöngu einn stjórnarþingmaður og einn þingmaður úr stjórnarandstöðu og einhverjir níu aðrir aðilar — og ég segi hiklaust „einhverjir aðrir aðilar“ því að það er Alþingi sem fjallar um þetta stóra mál, markar stefnu, eða ég skil alla vega hlutverk Alþingis þannig — er þetta alger hneisa að mínu viti og niðurlæging fyrir þingið ef þetta verður niðurstaðan, að framkvæmdarvaldið og hagsmunaaðilar ætli að marsera til Kaupmannahafnar til að fara yfir þetta stóra mál en þingmenn eigi gersamlega að vera úti í kuldanum.

Ég óska eftir því, virðulegi forseti, að ríkisstjórnin eða meiri hlutinn á Alþingi beiti sér fyrir því að reisn Alþingis í þessu máli verði örlítið meiri en nú er því að það er að mínu viti algerlega óásættanlegt að þingið sé sett út í kuldann í svo stóru máli þegar það er Alþingi sem fjallar um það. Framkvæmdarvaldið og aðilar úti í bæ eiga ekki að ráða för í þessu. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)