138. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2009.

störf þingsins.

[10:44]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að taka undir með hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni hvað varðar loftslagsráðstefnuna í Kaupmannahöfn og mikilvægi þess að þingið sé mjög vel upplýst um það sem þar fer fram. Ég held að það sé mjög mikilvægt þegar kemur að loftslagsmálum að alþingismenn séu mjög vel í stakk búnir til að taka þá umræðu. En það er ekki ástæða þess að ég kveð mér hljóðs í dag heldur langar mig að eiga orðastað við hv. þm. Lilju Mósesdóttur vegna þeirra tíðinda að Orkuveita Reykjavíkur hafi tekið lán til framkvæmda á Hellisheiði.

Samkvæmt fréttum eru þau lánskjör sem Orkuveita Reykjavíkur hefur tryggt sér um 1,25% vextir, þ.e. 40 punktar yfir Libor. Það vekur náttúrlega spurningar og vekur mann jafnframt til umhugsunar um annað stórt lán sem Íslendingar eru að fara að taka og er til umfjöllunar í þinginu um þessar mundir. Það er auðvitað Icesave-samkomulagið þar sem við erum með allt annars konar vexti eða 5,55%. Þessi vaxtafjárhæð er eitt af því sem verið hefur mikið bitbein í sumar og það er ekkert launungarmál að það er vaxtagreiðslan sjálf sem verður erfiðust fyrir okkur Íslendinga þegar fram í sækir varðandi greiðslur vegna Icesave. Það hefur svo sem líka legið fyrir, eins og þróunin hefur verið á alþjóðlegum mörkuðum, að vextir hafa verið að lækka og margir gagnrýnendur Icesave-samkomulagsins sögðu einmitt að við værum jafnvel að taka á okkur óþarflega háa vexti. Nú þegar fyrir liggur að Orkuveitan hefur fengið slíkt lánsloforð, þrátt fyrir að menn hafi haldið fram að Orkuveitan gæti ekki fjármagnað sig við núverandi aðstæður, vil ég segja að það er mjög áhugavert að bera það saman við ríkið sjálft sem þarf að taka lán upp á slíkar gríðarlegar fjárhæðir.

Mig langar til að spyrja hv. þm. Lilju Mósesdóttur að því hver hennar skoðun er á þessu máli og jafnframt hver hún telur að þróunin verði á mörkuðum erlendis hvað varðar lánskjör og vaxtagreiðslur. Hvort ekki megi líta svo á að við séum a.m.k. með óskaplegan mun hvað varðar Icesave-samkomulagið sem Íslendingar (Forseti hringir.) allir þurfa að greiða og svo þær fjárfestingar sem Orkuveita Reykjavíkur er að fara í á Hellisheiði.