138. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2009.

ummæli í utandagskrárumræðu -- loftslagsráðstefna -- þjóðgarðurinn Snæfellsjökull -- lán OR.

[10:48]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé þess virði að leggja við hlustir þegar stjórnarþingmaðurinn Lilja Mósesdóttir fer hér yfir lánakjörin á Icesave-samningnum og staðfestir það sem margir hafa haldið fram, að þau lánakjör sem bjóðast í tengslum við þennan samning eru allt of há. Ég held að þetta sé eitthvað sem við hljótum að ræða mjög ítarlega núna þegar við förum í þetta mál, ekki svo að skilja að það sé neitt minna um vert þegar stjórnarandstæðingur talar, það er alls ekki þannig, en hér var hins vegar um að ræða stjórnarþingmann sem færði mjög góð rök fyrir máli sínu.

Hér er einmitt, í tengslum við þessi mál, verið að ræða umhverfismálin í víðasta samhengi. Hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson fór nákvæmlega yfir það og talaði um mikið hagsmunamál okkar Íslendinga sem eru loftslagsmálin og þeir samningar sem þar er um að ræða. Ég held að það sé afskaplega mikilvægt, virðulegi forseti, að við höldum vöku okkar þar. Komið hefur fram að það er ekki mikill áhugi hjá hæstv. umhverfisráðherra að halda til haga hagsmunum Íslands, það er ekki hægt að skilja það öðruvísi þegar menn segja að þeir séu ekkert sérstaklega áhugasamir um íslenska ákvæðið.

Íslenska ákvæðið náðist fram vegna þess að við höfum sérstöðu í umhverfismálum, ekki af neinum öðrum ástæðum. Við getum uppfyllt það en aðrar þjóðir geta það ekki vegna þess að þær eru ekki með jafnumhverfisvæna orkugjafa og við Íslendingar. Núna er mjög lágt verð á þessum kvótum í loftslagsmálum. Samt sem áður mun það kosta íslenska þjóð 10–20 milljarða miðað við verðið sem er í dag ef menn munu ekki viðhalda þessu svokallaða íslenska ákvæði.