138. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2009.

afskriftir skulda og samkeppnisstaða fyrirtækja.

[11:21]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg):

Frú forseti. Íslenskt atvinnulíf stendur frammi fyrir risavöxnu verkefni. Það þarf að endurreisa trúverðugleikann og endurskipuleggja fjárhag og rekstur um 70% allra fyrirtækja á Íslandi. Sérfræðingar sem þekkja til kerfishruns ráðleggja að gjaldþrotalögum sé kippt úr sambandi um tíma og að farin verði samningaleiðin við að endurskipuleggja fjárhag fyrirtækja og heimila. Þetta hafa stjórnvöld reynt að gera hér á landi og lagað regluverkið og stuðningskerfið að þörfum fyrirtækja og heimila sem búa nú við mjög svo breytt umhverfi. Alþingi hefur samþykkt lög um aðgerðir í þágu fyrirtækja vegna fjármálakreppunnar og lög um stofnun opinbers hlutafélags til að stuðla að endurskipulagningu rekstrarhæfra atvinnufyrirtækja.

Markmið félagsins er annars vegar að tryggja skjóta úrlausn fjármálafyrirtækja á skuldavanda rekstrarhæfra atvinnufyrirtækja og hins vegar að tryggja hlutlæga, sanngjarna og gagnsæja skuldameðferð fyrirtækjanna. Félagið er hugsað sem nokkurs konar eftirlitsaðili með lánastofnunum hvað varðar fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækja. Félagið hefur því miður ekki tekið til starfa og því er nú verið að afskrifa skuldir fyrirtækja inni í bönkunum án þess að fram fari nauðsynlegt eftirlit.

Það er því mjög nauðsynlegt að hæstv. fjármálaráðherra hraði stofnun félagsins ef sátt á að ríkja í samfélaginu um aðgerðir bankanna. Jafnframt þarf Fjármálaeftirlitið að tryggja að bankarnir fari eftir þeim lögum sem við samþykktum hér fyrir stuttu varðandi endurskipulagningu á skuldum fyrirtækja. Það hafa komið fram kvartanir um að bankarnir séu með aðrar verklagsreglur en lögin gera ráð fyrir. Það er Fjármálaeftirlitsins að tryggja (Forseti hringir.) að farið sé að lögum.