138. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2009.

afskriftir skulda og samkeppnisstaða fyrirtækja.

[11:29]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi spyr ég hæstv. ráðherra hvort unnt verði að rifta þeim gjörningum sem nú verða hugsanlega gjörðir varðandi afskriftir fyrirtækja. Verður hægt að ná því til baka með einhverjum hætti ef þörf verður talin á eða það álitið óeðlilegt?

Ég sakna þess að ekki sé búið að setja fram skýrar, einfaldar og gagnsæjar reglur um hvernig þessu skuli háttað. Það er alveg ljóst að það er mikil geðþóttaákvörðun í gangi varðandi það hvaða fyrirtæki fá afskrifaðar skuldir og hvernig það verður gert, þetta er allt háð einhverjum geðþóttaákvörðunum. Það býður upp á, eins og hér hefur komið fram, spillingu sem hér er oft rætt um að koma þurfi í veg fyrir að grasseri.

Ég velti því líka upp: Hvaða fyrirtæki ríkisbankarnir eiga í dag, og ríkið, hvaða fyrirtæki er búið að yfirtaka og af hverju er ekki búið að selja þau? Þetta eru stórmál sem við erum að fjalla hér um. Ég velti líka fyrir mér og velti hér upp við þingmenn hvort ástæða sé til þess að Alþingi setji mjög hrein, skýr og klár lög um það hvernig fara beri með afskriftir. Ég þekki dæmin ekki það vel að geta sagt að það sé hægt en ég vil gjarnan velta því upp hvort ástæða sé til að Alþingi setji lög um hvernig farið er með þessar afskriftir. Í þeim lögum getur hreinlega verið sérstakt ákvæði um upplýsingaskyldu og annað.

Eins og málum er háttað í dag er algjörlega óþolandi að við, þingmenn og aðrir íbúar þessa lands, skulum þurfa að búa við það að geðþóttaákvarðanir í bönkum og lánastofnunum ráði því hverjir fá afskrifað, jafnvel geðþóttaákvarðanir manna sem eru tilnefndir til þeirra verka af stjórnmálaflokkum og stjórnmálamönnum. Þess vegna spyr maður sig hvort þetta svokallaða nýja Ísland sem allir eru að tala eigi ekki að fá betra start.