138. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2009.

heilbrigðisstarfsmenn.

116. mál
[11:57]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir framsögu hennar. Þetta er afskaplega þarft mál og við skulum ekki vanmeta það. Ég þekki málið vel, ég talaði fyrir þessu frumvarpi síðasta haust. Ég treysti því að frá þeim tíma hafi borist góðar umsagnir í tengslum við það þannig að okkur ætti ekki að vera neitt að vanbúnaði að klára þetta mikla hagsmunamál.

Þetta kemur til, eins og hæstv. ráðherra kom inn á, út af því að hér eru mörg lög og mikið flækjustig. Aðrar þjóðir hafa farið þá leið að vera með ein heilbrigðislög og var sérstaklega litið til Noregs í því samhengi þegar frumvarpið var samið. Ég á von á því að hér ætti að geta náðst góð pólitísk sátt, ekki ætla ég að tala gegn máli sem ég talaði fyrir sjálfur.