138. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2009.

þjóðgarðurinn á Þingvöllum.

93. mál
[12:05]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir að fara skilmerkilega í gegnum þetta frumvarp sem lætur nú lítið yfir sér. Mig langaði þó að spyrja eða velta upp tveimur hlutum. Í ljósi þess að þau lög sem hæstv. ráðherra nefndi frá 2008, sem kölluð voru meðal sveitarstjórnarmanna lög um skyldur sveitarfélaga og landeigenda og réttindi sumarhúsaeigenda, en ekki um skyldur og réttindi í sumarhúsabyggðum, langar mig að fá aðeins betri útskýringu á því að ríkisvaldið telur sig standa á einhvern veginn öðruvísi gagnvart sumarhúsaeigendum en sveitarfélög og aðrir landeigendur. Ég ætla þó ekki að gera lítið úr þeirri sérstöðu sem þjóðgarðurinn á Þingvöllum hefur og gæti haldið langa ræðu um það, en þetta hljómar svolítið sérkennilega.

Það skýtur skökku við að þarna skuli ríkisvaldið setja sig til hliðar og ekki vilja að sömu lög gildi um réttindi þess fólks sem á sumarhús á þessu svæði og um annað fólk á sumarhúsasvæðum annars staðar á landinu, óháð sérstöðu þjóðgarðsins, sem ég get tekið alveg fyllilega undir með hæstv. ráðherra að er gríðarlega mikil. Ef ég man rétt eru um 77 lóðir í þjóðgarðinum, innan helginnar í raun og veru, og auðvitað ættu að gilda um það sérstakar reglur. Þá velti ég því fyrir mér hvort ekki væri eðlilegra að taka sérstaklega út ákvæðið um tímalengd en láta frumvarpið að öðru leyti halda sér.