138. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2009.

staða efnahagsmála í kjölfar vaxtaákvörðunar Seðlabankans.

[13:51]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Virðulegi forseti. Það er rétt sem hér hefur komið fram, það eru vissulega vonbrigði að ekki hafi tekist að lækka vexti meira en tilkynnt var um í gær, úr 12% í 11%. Vonir hafa staðið til þess að hægt yrði að grípa til enn meiri vaxtalækkunar og vissulega er kallað eftir því alls staðar í samfélaginu. Það þarf ekki mikla speki til að sjá að atvinnulífið muni ekki standa lengi undir svo miklu og háu vaxtastigi. Atvinnulífið hefur liðið fyrir það háa vaxtastig sem hefur verið á undanförnum missirum, allt frá 18% og niður í þessi 11% sem eru komin núna. Hvorki atvinnulíf né rekstur fyrirtækja eða heimila þrífst við slíka vexti. Vextir verða að nást niður. Það eru allir sammála um það og því verðum við að ná.

Efnahagsmálin eru mál málanna, sagði hv. þm. Bjarni Benediktsson áðan. Það er alveg hárrétt og um þessi efnahagsmál hefur verið rætt á þingi í allt sumar, (Gripið fram í.) alveg frá kosningum og til dagsins í dag. Það hefur verið rætt um efnahagsmál og Icesave er hluti af því, hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson. Ríkisstjórnin hefur unnið að efnahagsmálum í allt heila sumar, ríkisfjármálin voru tekin til gagngerrar endurskoðunar í sumar vegna þeirrar stöðu sem ríkissjóður var kominn í þá og vegna verri stöðu en áætlað hafði verið. Það var farið í það mál innan fjármálaráðuneytis, í nefndum Alþingis og á Alþingi í sumar og samþykktar róttækar aðgerðir til að sporna við þeirri þróun sem þar var í gangi.

Ég veit ekki betur en að stöðugleikasáttmálinn sem var gerður við aðila vinnumarkaðarins haldi, ég veit ekki betur en að hann sé í fullu gildi og ég veit ekki betur en að kjarasamningar hafi verið endurnýjaður fyrir nokkrum dögum sem hlýtur þá að vera til vitnis um að þessi stöðugleikasáttmáli heldur (Gripið fram í.) þrátt fyrir að sjálfstæðismenn óski sér annars. (Gripið fram í.) Stöðugleikasáttmálinn heldur, ég veit ekki betur en svo sé enn og aðilar eru enn að talast við. Ríkisstjórn og aðilar vinnumarkaðarins eru að ræða saman um lausn þess vanda sem stöðugt herjar á íslenskt þjóðfélag. Það er engin einföld lausn til á þeim vandamálum, hv. þingmenn.

Það eru vissulega vonbrigði að ekki tókst að lækka vexti meira eins og ég sagði áðan. En það varð efnahagshrun á Íslandi. Efnahagskerfið hjá okkur hrundi en ég hef samt sem áður trú á því að í nánustu framtíð muni okkur takast (Forseti hringir.) að lækka vexti enn frekar en verið hefur. Það er margt sem bendir til þess að við séum að ná tökum á efnahagslífinu. (Forseti hringir.) Það hefur röggsöm og sterk ríkisstjórn gert og röggsamur meiri hluti á Alþingi. Og ég get ekki betur séð en að batinn sé að verða viðvarandi og margt sem vitnar um það í samfélaginu. [Hlátur í þingsal.]