138. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2009.

staða efnahagsmála í kjölfar vaxtaákvörðunar Seðlabankans.

[14:03]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er fagnaðarefni sem hæstv. forsætisráðherra segir, að ekki verði þörf fyrir eins umfangsmiklar skattahækkanir og áður var ráð fyrir gert vegna þess að hér horfi að ýmsu leyti betur en við áður hugðum. Það er kannski sérstaklega fagnaðarefni í því að meðal þess sem lítur betur út er að vaxtagreiðslur ríkissjóðs verði minni en ætlaðar voru. Þær gríðarlegu vaxtagreiðslur sem við okkur blasa eru auðvitað grátleg útgjöld fyrir ríkissjóð, og fagnaðarefni að þær séu minni en á horfðist. Jafnframt er ánægjulegt að sjá nú 1% viðbótarlækkun á stýrivöxtum hjá Seðlabankanum niður í 11% í gær. Þó að okkur þætti mörgum að þar mætti ganga hraðar verðum við að muna að á undraskömmum tíma hafa stýrivextirnir lækkað úr 18% í 11%.

Við eigum að læra það af sveiflunum í hagkerfinu á umliðnum árum og áratugum að í þessu efni eins og öðrum í efnahagsmálum er sígandi lukka best. Hér er ekki stefnuleysi við stjórnvölinn, eins og hv. formaður Sjálfstæðisflokksins heldur fram, heldur skýr efnahagsáætlun sem hér var samin m.a. með aðkomu þess flokks (TÞH: Skattstefna …) í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn sem hefur nú fengið þar löngu tímabæra endurskoðun. Það er auðvitað líka fagnaðarefni og mörg þau jákvæðu ummæli sem þar eru.

Lánveiting til Orkuveitunnar hefur hér verið nefnd. Það er auðvitað grundvallaratriði að við fáum erlent lánsfjármagn til fjárfestinga og aukinnar verðmætasköpunar í landinu sem á endanum mun ein vinna okkur út úr vandanum.

Um leið og við segjum það eru og verða í þessari umræðu margir töframenn sem munu segja okkur að það sé hægt að galdra burtu skuldir heimilanna eða að það sé hægt að galdra burtu skattahækkanirnar eða hægt að töfra burtu hitt og þetta. Við skulum muna að í aðdraganda hrunsins var líka hægt að réttlæta allan fjárann af því að við mundum hafa það svo gott í framtíðinni, ævintýralega skuldsetningu, skattalækkanir á kolröngum tíma — sem ég sjálfur tók raunar þátt í. Af því þurfum við að læra.

Vissulega er skuldavandi heimilanna mikill. Þar hefur verið gripið til aðgerða, greiðslubyrðin hefur verið lækkuð. Þar þurfa þeir sem verst eru settir enn frekari stuðning, það er klárt. En við þurfum líka að fara í skattahækkanir vegna þess að við höfum lifað um efni fram. Við verðum að horfast í augu við það og óraunsæjar skattalækkanir síðustu ára, sem ég sjálfur m.a. ber ábyrgð á, þurfum við að kalla til baka. Við verðum að eiga fyrir því sem við eyðum. Það breytir ekki því að hinir stóru og öflugu lífeyrissjóðir landsins geta auðvitað á einhverju stigi málsins þurft að leggjast með okkur á árarnar. En við skulum byrja á því (Forseti hringir.) að draga til baka þær skattalækkanir sem engar innstæður voru fyrir (Forseti hringir.) og axla þær byrðar sem við þurfum að taka í þessum björgunarleiðangri því að hér þurfa allir að axla nokkra ábyrgð.