138. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2009.

nauðsynlegar bráðaaðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

3. mál
[14:36]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka sjálfstæðismönnum fyrir þær tillögur sem þeir hafa lagt fram. Það er náttúrlega með þessar tillögur eins og allar að það er ýmislegt í þeim sem er jákvætt og annað sem maður er minna sammála. Mig langar að beina einni fyrirspurn til hv. þingmanns um skattlagningu á greiðslum inn í lífeyrissjóði. Hún snýr að því hvort þeir hafi við vinnslu þessa frumvarps eitthvað borið þetta undir forsvarsmenn lífeyrissjóðanna og hvort hann telji að þær aðgerðir — nú vitum við að lífeyrissjóðirnir voru að skrifa undir stóran samning um fjármögnun á Landspítala – háskólasjúkrahúsi og hyggjast koma að fleiri verkefnum — muni hafa jákvæð eða neikvæð áhrif á vilja þeirra til að koma að verkefnum sem þessum víðs vegar um landið.