138. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2009.

nauðsynlegar bráðaaðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

3. mál
[15:43]
Horfa

Flm. (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef oft velt því fyrir mér hvers vegna það hafa fyrst og fremst verið álver sem við höfum byggt hér á Íslandi, eða erlendir fjárfestar öllu heldur, og sem við höfum framleitt orkuna fyrir. Ég hef oft spurt mig að því: Er ekki fleira sem tengist þessari starfsemi sem gæti skapað störf, t.d. frekari vinnsla á hráefninu, álinu sjálfu, sem verið er að framleiða? Niðurstaða mín er sú að við Íslendingar höfum ekki verið samkeppnisfærir í kostnaði við mannafla við aðra heimshluta. Þótt álverin, sem eru tiltölulega stórar einingar og með tiltölulega fá störf miðað við þessa gríðarlegu framleiðslu, skipti okkur miklu þar sem störfin skipta þúsundum, (Gripið fram í.) er það orkuverðið og hin hreina orka okkar Íslendinga sem ræður hér og skiptir sköpum. Ég er ekki þeirrar skoðunar að við eigum að einblína á álverin. Í efnahagstillögum okkar frá þessu ári höfum við vakið athygli á því að orkustefna okkar eigi að miða að því að orkan nýtist til fjölbreyttrar atvinnuuppbyggingar. Þar má nefna til sögunnar ýmsa aðra starfsemi en álver, eins og t.d. kísilflöguverksmiðjur, álþynnuverksmiðjur, gagnaver og annað þess háttar.

Ég er jafnframt þeirrar skoðunar að eitt útiloki ekki annað í þessum efnum. Ég tel að uppi hafi verið raunhæf áform um orkunýtingu sem geti tryggt orkuna fyrir álver í Helguvík. Meðal annars þarf að nýta orkuna í neðri hluta Þjórsár og það sem úr er að spila á Suðurnesjunum. Að því leyti held ég að áform um stóriðju á Suðurnesjum séu alls ekki byggð á óraunhæfum væntingum um orkugetu eða framleiðslugetu okkar.