138. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2009.

nauðsynlegar bráðaaðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

3. mál
[15:45]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessi svör. Mig langaði hins vegar að ítreka spurninguna vegna þess að hv. þingmaður talar einmitt um fjölbreytta atvinnustarfsemi byggða á þessum dýrmætu orkuauðlindum okkar. Ef það er þannig, burt séð frá því hvort við viljum yfir höfuð ganga svona hart fram gagnvart náttúrunni, gefum okkur það að Sjálfstæðisflokkurinn vilji það en ef hann vill jafnframt fjölbreytta atvinnustarfsemi byggða á þessum dýrmætu orkuauðlindum og við vitum það til framtíðar litið að það er ýmislegt annað sem mun gefa okkur meira í aðra hönd á sjálfbærari grunni en áliðnaður, þarf þá ekki Sjálfstæðisflokkurinn að setja fram tillögu þess efnis að orkan verði ekki öll soguð upp af álverum, heldur einmitt þeirri fjölbreyttu starfsemi sem hv. þingmaður Bjarni Benediktsson ræddi hér um, þ.e. ef það er ekki pláss fyrir allt? Orkuauðlindirnar eru takmarkaðar og þær munu þurrkast upp með tímanum. Þurfum við þá ekki að vanda okkur gríðarlega til lengri tíma litið, gera pláss fyrir þessa svokölluðu fjölbreyttu starfsemi og hvernig ætlar Sjálfstæðisflokkurinn og hv. þingmaður að gera það ef hann ætlar að setja þetta allt í einn bakka sem heitir álver?