138. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2009.

breytingar á skattkerfinu.

[13:34]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Það er kominn 10. nóvember. Mál málanna í stjórnmálum á Íslandi í dag eiga að snúast um efnahagsmál, leiðir til að loka fjárlagagatinu. Ég ber upp fyrirspurn til hæstv. menntamálaráðherra og varaformanns Vinstri grænna: Er það virkilega svo að þessi ríkisstjórn sem hefur starfað hér síðan í febrúar, þessi ríkisstjórn sem fór í gegnum kosningar og fékk endurnýjað umboð til að stýra landinu og hefur núna lagt fram fjárlagafrumvarp sé enn þá að klóra sér í hausnum yfir því hvernig eigi að vinna að stærsta máli íslenskra stjórnmála í dag?

Er það satt sem við heyrum í fjölmiðlunum að það standi til að rústa skattkerfið, taka upp þriggja þrepa skattkerfi og fara með skatta á einstaklinga upp í 50%, (Gripið fram í: Já.) að skattar á einstaklinga verði hækkaðir úr 37% og upp í 47% í efsta þrepinu sem er tæplega 30% hækkun á skatta á einstaklinga? Er það satt sem við heyrum? Hvernig stendur á því að við erum ekki á þinginu að ræða þessi mál? Hvernig má það vera núna þegar sex vikur eru þar til árinu lýkur og við verðum að hafa lokið fjárlagaumræðunni að við erum ekki enn þá farin að ræða þessar grundvallarákvarðanir? Er það kannski þannig að það sem ríkisstjórnin talaði um fyrir kosningar sem blandaða leið er ekki annað en brjáluð leið? Þetta er brjáluð leið.

Við sjálfstæðismenn höfum teflt fram skýrum tillögum sem eru valkostur við þessa aðferðafræði ríkisstjórnarinnar, hugmyndir um að hlífa atvinnulífinu og einstaklingum við þessum auknu skattálögum, einmitt þegar verst stendur á. Þessar tillögur hafa enga umræðu fengið á þinginu. Við krefjumst þess að ríkisstjórnin fari að gera hreint fyrir sínum dyrum, hætti þessu leynimakki úti í bæ, komi með skýr svör um það hvernig hún ætlar að leysa verkefnið (Forseti hringir.) sem hún tók að sér 1. febrúar sl.