138. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2009.

breytingar á skattkerfinu.

[13:36]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina sem mér fannst snúast fyrst og fremst um að hann kallaði eftir umræðu um fjárlögin — sem auðvitað voru rædd. Þau voru hér rædd í byrjun október og þá var einmitt farið yfir fyrstu drög að skattatillögum. Hins vegar er alveg rétt að enn er unnið að útfærslu skattatillagna, eins og hefur komið fram, og verða þær væntanlega líka til umræðu enda enn þá talsverður tími til 2. umr. fjárlaga.

Mér finnst samt sem áður dálítið merkilegt að hér sitjum við uppi með ákveðna stöðu sem hv. þingmanni er auðvitað vel kunn, sem er þessi 170 milljarða króna halli á ríkiskassanum. Vissulega töluðum við um blandaða leið. Við töluðum um blöndu þess að skera niður í ríkisútgjöldum, og þykir þó nógu mörgum ansi hart fram gengið í þeim efnum, eða ekki skorið á réttum stöðum því að ávallt má finna eitthvað til að gagnrýna í þeim efnum, og aukinnar skattheimtu. Þetta kallar hv. þingmaður brjálaða leið sem mér finnst dálítið merkilegt þegar við erum að ræða hér breytingar á skattkerfi sem miða að þrepaskiptu skattkerfi eins og hin „brjáluðu Norðurlönd“ hafa t.d. valið í skattkerfi sínu.

Ég skil ekki alveg hvernig hægt er að fordæma hugsun um þrepaskipt skattkerfi sem miðar að því að dreifa þessum byrðum á réttlátari máta. (TÞH: Það er …) Þessar breytingar miða að því að dreifa byrðum, sem vissulega eru þungar að bera, á réttlátari máta og hverfa frá þeirri furðulegu skattstefnu sem hér hefur lengi verið við lýði, að hafa flatan skatt sem gagnast síst þeim sem minnstar tekjurnar hafa. Sú var raunin og hefur í stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins verið sýnt fram á að sú leið skilaði þeim bestum árangri sem hæstar tekjurnar höfðu en hinum minni árangri.

Hins vegar er alveg rétt hjá hv. þingmanni að enn þá er unnið að útfærslu og það er erfitt að svara fyrir um það hér og nú í þessum fyrirspurnatíma. Ég á von á því að þær aðgerðir hljóti að koma til umræðu á (Forseti hringir.) allra næstu dögum.