138. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2009.

breytingar á skattkerfinu.

[13:39]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Það má kalla það brjálæði að reyna að loka þessu gati með blandaðri leið. Ég kalla það ekki brjálæði. Hins vegar er að vissu leyti brjáluð staða að standa frammi fyrir því að heilt bankakerfi fari á hausinn, að Seðlabankinn fari á hausinn — og það gerðist ekki í tíð þessarar ríkisstjórnar. Það er alveg brjálæðislegt verkefni.

Það þarf engum að koma á óvart að við förum þessa blönduðu leið, það lá fyrir eins og hv. þingmaður veit fyrir þessar kosningar þar sem ríkisstjórnin endurnýjaði umboð sitt. Þá lá það fyrir og það var talsvert rætt að sumir hefðu engu lofað nema lægri launum og hærri sköttum en það er bara þannig sem við þurfum að gera þetta. [Kliður í þingsal.] Það þarf að taka á í þessum efnum og það er m.a. gert með hærri sköttum sem miðast að því að dreifa þeim samt á réttlátari hátt þannig að byrðarnar falli ekki enn og aftur á þá sem lægstar tekjurnar hafa. Kannski ættum við líka að horfa á brjálæðið sem fólst í því að lækka skatta á sínum tíma á mesta þenslutímanum, (Gripið fram í.) að lækka skatta þá (Forseti hringir.) og horfa á það kerfi sem hér hefur verið byggt upp sem ekki hefur beinlínis skilað réttlæti í skattkerfinu.