138. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2009.

samgönguáætlun.

[13:50]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Virðulegi forseti. Í fréttum er þetta helst: Samgönguáætlun er í vinnslu og mun birtast, en í fréttum er þetta líka helst að samgönguáætlun er í gildi ef hv. þingmaður gerir sér ekki grein fyrir því. Og það er unnið eftir þeirri áætlun sem er í gildi. Hún er nefnilega fyrir árin 2007–2010 og það er unnið eftir þeirri áætlun. Þetta er veigamikið atriði fyrir þá að hafa í huga sem ekki vita þá hvaða áætlun er í gildi og hvort ekki sé unnið eftir samgönguáætlun. Svo er.

Hv. þingmaður talar um að eyða óvissu. Jú, sannarlega þarf að gera það vegna þess að við þurfum að sýna í hvaða verk við komumst næst í þeirri næstu stuttu áætlun sem við setjum fram. Hv. þingmaður talar um að ekkert fé sé til nýframkvæmda á næsta ári. Virðulegi forseti. Þetta er ekki rétt. Það eru 10 milljarðar til framkvæmda á næsta ári. Þau verk eru öll í gangi og verður unnið eftir þeim, að sjálfsögðu. (Gripið fram í: Ekki ný.) En hvenær við komumst í ný útboð, þau fara að koma og það verður það sem við þurfum að setja inn í áætlun, hvaða verk ætlum við að vera með í gangi 2011, 2012 og jafnvel til 2013. (Gripið fram í: 2010.) Samgönguáætlun er mjög löng. Ég heyrði eitthvað núna, einhverja spurningu: Hvað með 2010? Ég er að svara því að það eru framkvæmdir í gangi fyrir árið 2010, fyrir a.m.k. 10 milljarða kr., (Gripið fram í: Engar nýjar framkvæmdir.) nýjar framkvæmdir. Það eru nýframkvæmdir í gangi. Þetta er ekki þannig, virðulegi forseti, að það sé bara hægt að smella saman fingrum og um leið og búið er að bjóða út verk fyrir nokkra milljarða smella hinum fingrunum saman og segja: Þar með er ekkert í gangi.

Þetta tekur sinn tíma og verk standa í langan tíma þannig að það er ekki rétt, virðulegi forseti, að ekkert sé í gangi. Það er mikið í gangi. Í ár er annað mesta framkvæmdaár Íslandssögunnar. Það mesta var í fyrra og við verðum með þessu tölu fyrir næsta ár (Forseti hringir.) og það er samgönguáætlun í gildi, það er veigamikið atriði.