138. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2009.

áform ríkisstjórnarinnar í skattamálum.

[14:08]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil koma hér upp í tilefni af þeirri umræðu sem farið hefur hátt í fjölmiðlum í dag og undanfarna daga, um áform ríkisstjórnarinnar í skattamálum. Ég er þeirrar skoðunar að það sé varla verjandi að halda áfram með þá dagskrá þingsins sem lagt er upp með hér í dag og vil beina því til forseta að … (Forseti hringir.)

(Forseti (ÁRJ): Þetta er ekki fundarstjórn. …)

(Gripið fram í.) Ég er hér að fjalla um dagskrána sem liggur frammi. Ég vil beina því til forseta að taka það til athugunar að við getum nú strax í dag með nýrri dagskrá tekið áform ríkisstjórnarinnar í skattahækkunarmálum til umfjöllunar hér á þinginu eða, ef forseti getur ekki fallist á þessa beiðni, að hæstv. forseti sjái til þess að við tökum þá umræðu hér við allra fyrsta tækifæri vegna þess að þetta eru málefni sem varða almenning í landinu svo miklu. Við höfum fjárlagafrumvarp sem svarar engum spurningum í þessu efni. Við hljótum að fara fram á það við forseta þingsins að hún gæti að virðingu Alþingis þannig að umræðan um þessi mál fari fram þar sem hún á heima, hér á þinginu. Hér eru engin gögn til þess (Forseti hringir.) að grundvalla slíka umræðu og við hljótum að fara fram á það við ríkisstjórnina að hún geri þinginu kleift að fjalla um þau áform sem hún hefur uppi (Forseti hringir.) þannig að þessi umræða sem varðar heimilin og atvinnustarfsemina svona miklu eigi sér ekki bara stað í fjölmiðlum.