138. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2009.

fundarstjórnarumræða og dagskrá fundarins.

[14:15]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Hér hefur það gerst að margir þingmenn hafa ítrekað farið fram á að fá að ræða fundarstjórn forseta. Einn hv. þingmaður, Bjarni Benediktsson, fékk leyfi til að fara í pontu og lýsa þeim sjónarmiðum sem hann hafði varðandi fundarstjórn forseta. Fjöldi annarra hv. þingmanna bað um orðið til að ræða fundarstjórn forseta. Forseti komst að niðurstöðu hvað varðaði þann málflutning sem hv. þm. Bjarni Benediktsson hafði vegna stjórnar forseta.

Forseta er algjörlega ómögulegt að vita hvað aðrir hv. þingmenn höfðu hér fram að færa varðandi liðinn fundarstjórn forseta. Nú kann að vera að frú forseti hafi gefið sér eða giskað á hvað aðrir þingmenn ætluðu að segja, það kann að vera, en það hlýtur að vera sú regla hér í þinginu, og hún verður að vera höfð í hávegum, að þeir þingmenn sem vilja koma með athugasemd um fundarstjórn forseta fái tækifæri til þess. Það er ekki hægt að stjórna þinginu með þessum hætti. Ég geri alvarlega athugasemd við þetta. Ég mun taka þetta mál upp á fundi formanna þingflokkanna. Þetta er eitthvað sem við getum ekki látið þróast hér í þingsal. Þegar hv. þingmenn biðja um orðið til að gera athugasemd (Gripið fram í.) við fundarstjórn forseta er eðlilegt að þeir fái að ræða og kynna sína skoðun. (Forseti hringir.) Nú hafa ýmsir þingmenn beðið um orðið, frú forseti, varðandi fundarstjórn forseta. Er það ætlun forseta að hleypa þessum þingmönnum sérstaklega upp eða gilda (Forseti hringir.) ákveðnar reglur um suma þingmenn og aðra ekki? (Gripið fram í.)