138. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2009.

fundarstjórnarumræða og dagskrá fundarins.

[14:17]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Þannig háttar til að ég sat í dag minn fyrsta fund sem starfandi þingflokksformaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og fyrsta fund í forsætisnefnd. Þar voru til umfjöllunar dagskrármál dagsins í dag, þinghaldið í dag. Það kom engin athugasemd fram um það frá hv. þingflokksformanninum, Illuga Gunnarssyni, að Sjálfstæðisflokkurinn ætlaði ekki að fallast á þá dagskrá sem hér lægi fyrir. Það þarf enginn að halda því fram eða telja okkur trú um að formanni þingflokks Sjálfstæðisflokksins hafi ekki verið það kunnugt á fundunum hér fyrr í dag (Gripið fram í: … fundarstjórn.) að Sjálfstæðisflokkurinn ætlaði að gera athugasemd við dagskrá fundarins. (Gripið fram í.) Í þessari atlögu þingmanna Sjálfstæðisflokksins að þingstörfunum hér í dag felst vantraust á formann þingflokks Sjálfstæðisflokksins. Og það er þeim til skammar að þeir skuli ganga hér út þegar á að ganga til atkvæðagreiðslu og halda áfram dagskránni eins og hún var boðuð. (Gripið fram í.)